miðvikudagur, desember 24, 2008

jóla, jóla, jóla, jóla....


þá getur maður farið að éta konfekt, kökur og dýrindis steikur því jólin eru brostin á. ekki væri heldur verra að eitthvað leyndist í jólapökkunum sem mann langar í.

ég óska ykkur gleðilegra jóla og gæfu á nýju ári. megi kreppudraugarnir halda sig í burtu frá ykkur sem lengst. sjáumst hress á árinu sem senn gengur í garð!

föstudagur, desember 12, 2008

loksins, loksins...


hvað haldið þið? jú, það stefnir í að ég geti sofið í svefnherberginu mínu um helgina! eftir að hafa sofið í stofunni í u.þ.b. 2 mánuði, eftir framkvæmdir sem m.a. fólust í gluggaskiptum, þá er ekki frá því að hægt verði að flytja rúmið inn í herbergi.

þetta átti ekki að taka svona langan tíma. gunni minn kláraði sitt fljótt og vel enda einstaklega handlaginn verkmaður. en kallagreyin sem smíðuðu gluggana gleymdu að panta rúður. svo þegar rúðurnar komu voru þær sprungnar (litlu rúðurnar) og stóra rúðan var hreinlega of lítil. nú þetta er reyndar ekki búið enn því að stóra rúðan er komin (eftir langa mæðu) og í gluggann (út úr neyð, ég vil ekki sofa í stofunni um jólin því þá er ekkert pláss fyrir jólatré) en það er sprunga í henni. þannig að við verðum í þessu brasi fram að páskum, grunar mig.

svo er gunni minn að klára gluggamálin í barnaherberginu líka. ótrúlegt en satt var líka vesen með rúðurnar þar. en ef allt gengur eins vel og hægt er miðað við sprungnar aðstæður þá gætum við komist langt með barnaherbergið, raða húsgögnum sem komin eru og svona. gardínumál verða að bíða þar til við komumst til borgar óttans.
en kisi minn verður að sætta sig við að kúra einn frammi eftir þessa flutninga aftur inn í herbergi, greyið litla.

föstudagur, desember 05, 2008

jólaundirbúningur


ég fór að velta fyrir mér æðinu í fyrir jól eftir að hafa lesið bloggfærslu möggu móðu fyrir nokkrum dögum. þar sagði að hún ætti eftir að þrífa svo marga skápa fyrir jólin og hefði svo mikið að gera að hún vissi ekki hvernig hún ætti að klóra sig fram úr þessu.


ég kommentaði að jólin væru yfirleitt ekki inni í skáp og að þau kæmu hvort sem skáparnir væru hreinir eða ekki.


ég man vel hvernig þetta var heima hjá mér í gamla daga. mamma bakaði 14 smákökusortir, svampbotna, marengsbotna, skinkuhorn, ostahorn, kúmenkringlur, randalínur, döðlubrauð, gráfíkjutertur og ég veit ekki hvað, fyrir utan konfektið sem hún var farin að gera líka. það þurfti að gera kertaskreytingar og kransa og það þurfti líka að þrífa inni í öllum skápum, skrúbba loft og veggi, pússa allt sem pússandi var o.s.frv. þetta tók toll af fjölskyldunni. stundum svo að allir voru hundfúlir hverjir við aðra af stressinu í mömmu af því að allt átti að vera fullkomið kl. 18.00 á aðfangadagskvöld. og yfirleitt var allt fullkomið, nema að mamma var úrvinda eftir erfiðan mánuð.


ég fæ reyndar stundum svona tilfinningu ennþá fyrir jólin að ég sé ómöguleg húsmóðir af því ég geri ekki allt eins og mamma (og reyndar amma, þaðan fékk mamma þetta æði fyrir jólin). en sem betur fer er ég frekar skynsöm kona og veit að jólin felast ekki í glansandi gólfum eða milljón smákökum sem enginn nennir að borða af því það er boðið upp á svo mikið konfekt. nei, ég dreifi verkefnunum jafnt á mánuðinn og læt mér nægja tvær smákökusortir (bara upp á stemminguna) og hef talið mér trú um að það sé betra að þrífa skápa á vorin því þá sést skíturinn betur. ég vil njóta þess að skreyta í rólegheitum, hlusta á jólalög og narta í smákökurnar, því konfektið geymi ég fram að jólum. svona vil ég njóta aðventunnar og hlakka til að eyða jólunum með þeim sem mér þykir vænt um, hvort sem að vel sé raðað inn í fataskáp eða ekki.

mánudagur, desember 01, 2008

breytingar


nú standa yfir breytingar á herbergjaskipan í húsinu. ég er reyndar búin að sofa í stofunni í rúman mánuð vegna skorts á rúðu í nýja gluggann en það eru ekki breytingarnar sem nú eru fyrirliggjandi. tölvan er komin upp á loft og verið er að vinna að því að tæma litla herbergið sem senn verður barnaherbergi.

hann gunni minn er í landi og hann lætur sér sko ekki leiðast. þar á sumsé að skipta um glugga (í hann vantar ekki rúðu) og mála og svo raða inn þeim húsgögnum sem æskileg eru í slíkum herbergjum. það er nú ekki margt sem vantar ennþá. bara svona dúllerí sem mömmum finnst vanta í slík herbergi: sætar gardínur, næturljós, krúttlegt loftljós, hillur fyrir alls kyns krúttlegheit, jafnvel veggborða og að sjálfsögðu þarf þetta allt að vera í stíl. mikið vildi ég að ég gæti ráðið svona innlit/útlit týpu sem myndi bara sjá um þetta fyrir mig. því þó ég sé hætt að vinna vex mér þetta svo í augum að ég er að fá útbrot af þreytu fyrirfram...


föstudagur, nóvember 28, 2008

síðasti vinnudagurinn


síðasti vinnudagurinn í dag. frá og með mánudeginum er ég komin í óléttuorlof þar til A og B fæðast og þá byrjar fæðingarorlofið. þetta er skrítin tilfinning og það verður ennþá skrítnara að þurfa ekki að fara á fætur kl. 7.00 á hverjum virkum morgni, ekki ósvipað og að vera í verkfalli. en ég ætla mér að taka mark á heilbrigðisstarfsfólkinu og hætta meðan allt er ennþá í góðu og ég get einbeitt mér að því að hvílast og græja og gera fyrir komu krílanna. læknirinn sem skrifaði vottorðið fyrir mig sagði að hann hefði viljað að ég hefði hætt á 20 viku, þ.e. fyrir 2 mánuðum síðan. þá hefði ég nú örugglega misst vitið eða þá að bjallan sem gunni keypti um daginn væri komin á götuna nú þegar...

en tvíbbarnir þroskast vel og miðað við mælinguna í dag þá verða þetta stór og stæðileg börn þegar þar að kemur. alla vega voru þau yfir kúrfunni en það gæti nú hægst á stækkuninni fljótlega þegar plássið í bumbunni minnkar. ég er farin að finna fyrir því að plássið er orðið lítið því að iðullega er annar hvor tvíburinn eða báðir í feykifjöri og sprikla sem mest þeir mega og þá gengur bumban í bylgjum. það er nú bara gaman, meðan ég hef svefnfrið að minnsta kosti.

sunnudagur, nóvember 23, 2008

22. nóv.


í gær fattaði ég að það voru nákvæmlega 3 mánuðir í áætlaðan fæðingardag litlu twillinganna. ég horfði niður á bumbuna og dæsti því ég er farin að líta út eins og hvalur nú þegar.

það er sagt að tvíburamömmur séu orðnar jafnsverar á 29. viku og einburamömmur á 40. og síðustu vikunni. það verður hjá mér í þar næstu viku...og þessar elskur þarna inni eru farnar að láta mömmu sína finna fyrir því. ég þarf að vakna til að pissa svona þrisvar á nóttu og að bylta sér í rúminu er orðin ný íþrótt, ég á orðið erfitt með að fara í sturtu því ég þreytist svo að standa og bisa þetta, óléttufötin sem ég á eða hef til afnota eru að verða of lítil, ég hef sloppið við brjóstsviða en nábítur er daglegt brauð, ef ég dirfist að standa meira en góðu hófi gegnir í vinnunni þá langar mig að gráta vegna þreytu í fótunum, ég þarf að leggja mig á daginn til að geta vakað til 22.00 (ókei, það er kannski ekki svo slæmt) og innyflin eru notuð fyrir boxpúða allan liðlangan daginn.

útaf öllu þessu þá fer að styttast í að ég hætti að vinna, eins ómissandi og mér finnst ég vera. jæja, ég er ómissandi fyrir krílin mín í bumbunni og ætla að njóta þess þar til þau koma að geta ekki sofið, staðið eða farið í sturtu...

sunnudagur, nóvember 16, 2008

facebook

ég hef komist að því að mér finnst facebook ekkert rosalega skemmtilegt. ég er jú með facebook síðu en hef takmarkaðan tíma til að hanga á netinu. ástæðan fyrir því að mér finnst þetta ekki mjög skemmtilegt: það eru allir hættir að blogga. í staðinn eru menn og konur að taka endalausar kannanir á því hvaða simpson persóna þeir/þær eru, hvaða grænmeti þau eru, hvort þau séu ung í anda og senda manni boð í alls konar vitleysu sem ég vil ekki taka þátt í. það er t.d. gang wars, hver er besti vinurinn á facebook, besti partýhaldarinn og ég veit ekki hvað.
vissulega er gaman að rekast þarna á fólk sem maður hefur ekki séð í áravís. það fylgja hins vegar ekki miklar upplýsingar um viðkomandi; hvað hefur verið að gerast, hvað fólk er að hugsa o.s.frv. það finnst mér skemmtilegra...
kannski er ég bara svona takmörkuð að ég sé ekki möguleikana í þessu öllu en ég hef hitt fleiri sem svipað er ástatt um og veit því að ég er ekki eini asninn í netheimum sem skilur ekki hvað all the fuzz is about...

laugardagur, nóvember 15, 2008

namminamm...


ég er að fara að baka jólasmákökurnar með sæfinnu. þetta er orðin jólahefð hjá okkur en er frekar snemma í ár sökum bumbustækkunar af minni hálfu, það verður erfitt að segja hvernig ástandið á mér verður um miðjan desember (kannski jafnbreið á þverveg eins og langveg?). ég er einmitt að fara að kaupa hráefnið núna og ætla að líta eftir nokkrum jólagjöfum í leiðinni.

ég reyndar uppgötvaði það í gær, mér til mikillar gleði, að ég er langt komin með jólagjafakaupin í ár. var nebblega búin að gleyma fyrirhyggju minni í vor á bókamarkaðnum í perlunni og svo gerði ég líka góð kaup á tónlistarmarkaði um daginn.

jiiii, það vantar bara að ég fari að prjóna og taka slátur og sulta þá er ég orðin ýkt mikil húsmóðir og almennilega fyrirhyggjusöm að auki.

laugardagur, nóvember 01, 2008


þessa dagana eru allir að tala um ástandið á íslandi í dag. ég er orðin hundþreytt á því. við getum talað okkur blá í framan en það breytir engu um hvað þessir háu herrar og frúr á alþingi og í öllum þessum nefndum og ráðum gera.

hins vegar er ég mjög hrifin af framtaki þeirra sem settu á fót síðuna http://www.indefense.is/ þarna er málpípa fyrir almúgan að tjá sig um gjörðir herra browns og herra darlings sem hjálpuðu til við að gera vondar aðstæður verri. ekki er heldur verra að húmorinn er í fyrirrúmi. stúlkan á myndinni er dóttir kunningjakonu minnar og eins og sjá má er hún ekki ánægð með kumpánana darling og brown.

föstudagur, október 17, 2008

brosað í kreppunni


á þessum síðustu og verstu tímum þegar allir eru að barma sér hef ég tekið þá ákvörðun að breytast í Pollýönnu.

ég er t.d. mjög ánægð með að eiga enga peninga til að hafa áhyggjur af og hvað varðar skuldirnar þá reddast það eins og venjulega.

ég er ánægð með að gunni minn skuli vera bóndi svo að við fáum nóg af kjeti í kistuna.

ég er ánægð með að vinur okkar sé bolfisksjómaður og við fáum að njóta góðs af því.

ég er ánægð með að kisi minn knúsar mig alltaf jafnmikið, sama hversu lítið ég á af aur.

ég er ánægð með að bumban stækkar og stækkar.

ég er ánægð með að eiga fjölskyldu.

ég er ánægð með að eiga hann gunna minn.

ég gæti bætt helling við en það yrði bara væmið og asnalegt. en eins og þeir segja á skjá einum: það sem er verðmætast í heiminum er ókeypis...

föstudagur, október 03, 2008


alltaf verður maður jafnhissa þegar fyrsti snjórinn lætur sjá sig! lélegu sumardekkin eru ennþá undir bílnum og bíða eftir því að gunni minn komi heim af sjónum svo hægt sé að skipta yfir á vetrardekk. ég er of mikil prinsessa og of ólétt til að nenna að standa í því sjálf.

annars líður ekki á löngu þar til gunni minn kemur heim í frí en hann mun samt missa af 20 vikna sónarnum og það finnst mér leiðinlegt. hins vegar er það mikill kostur að tæknin er orðin svo mikil að ég fæ upptöku á dvd af krílunum til að sýna honum þegar hann kemur heim. en aumingja gunni minn fær ekki mikið frí þegar hann kemur heim; það þarf að byrja að skipta um glugga í húsinu og byrja að færa tölvuherbergið upp og græja barnaherbergið niðri, hann þarf að skipta um dekk eins og áður sagði, klára grindverkið sem hann byrjaði á í ágúst, setja vetrarhlíf utan um jenna (öspina sem við bindum miklar vonir við), stjana við mig og bumbubúana, knúsa mig mikið og lengi og ég veit ekki hvað og hvað... en mikið hlakka ég til að sjá gunna minn...

föstudagur, september 26, 2008

jæja, loksins!


af hverju er mynd af skapta og skafta hér? lestu áfram...
nú er maður loksins sestur niður aftur til að pára eitthvað hér. ég hef orðið fyrir aðkasti vegna þess hve löt ég hef verið við að setja eitthvað inn hér, það má líka segja um fleiri en ég ætla ekki að fara kasta steinum úr glerhúsi þó ég sjái flísina í auga náungans en bjálkinn sem ég þvælist með er farinn að skyggja á útsýnið úr glerhúsinu...

aðalástæðan fyrir nennuleysinu í sumar er flökurleiki og almennt slen sem fylgir fyrstu mánuðum meðgöngu. það hamlaði því sumsé að ég hefði orku í ýmislegt sem fólki finnst annars sjálfsagt. jú, tvíburakrílin hafa haft mikil áhrif á orkubúskap undirritaðrar og munu eflaust gera um ókomna framtíð en við gunni minn gætum ekki verið glaðari enda búin að bíða eftir þessu í ansi mörg ár. þrátt fyrir að hafa sett mynd af eineggja karlkyns tvíburum skuluð þið ekkert lesa í það því okkar tvíbbar er tvíeggja og ekki er vitað um kynin. hér á síðunni mun síðan opna veðbanki þegar nær dregur fæðingu...

en nú þegar meðgangan er u.þ.b. hálfnuð þá er mér farið að líða mun betur þó svo að ég sé oft svo þreytt eftir vinnudaginn að ég geri mest lítið eftir að ég er komin heim. þannig að ekki búast við því að ég fari að setja nein met í bloggfærslum.


mánudagur, júlí 21, 2008

ég hef verið haldin einstakri bloggleti eins og menn og konur hafa eflaust tekið eftir. það er líka ýmislegt sem mann langar frekar gera þegar sólin skín og maður er fríi. annars hef ég verið mest heima en hef líka farið aðeins upp á land. gunni minn er kominn í frí og verður í fríi þar til ég fer að vinna 18. ágúst. ég mun örugglega ekki vera dugleg að skrifa hérna inn það sem eftir er af sumri en kannski kemur einhver speki ef ég kemst í stuð. ef ég sé með hattinn kemst ég örugglega í stuð...

miðvikudagur, júní 11, 2008


ekki fór júróvisjón eins og ég ætlaði en það verður að hafa það. ég held svei mér þá að ég hafi ekki haft rétt fyrir mér síðan ruslana vann hér um árið. lagið mitt dunar nú samt í græjunum reglulega þar sem ég keypti diskinn.

en nú er komið að enn öðru þar sem ég held með portúgal, nefnilega em í fótbolta. þarna er portúgalshlið fjölskyldunnar ekki heldur með þrýsting á mig að hvetja þessa snillinga heldur er það hinn undurfagri Figo sem er þess valdandi. hann var ekki í liðinu í fyrsta leiknum, heldur í stúkunni væntanlega sem andlegur stuðningur. fyrir ykkur sem ekki vitið hver þetta er þá skuluð þið fletta upp orðinu karlmennska í orðabók og það er mynd af honum þar við hliðina, það segir katla vinkona alla vega. ef ég ætti ekki kyntröllið gunna minn fyrir mann þá væri figo orðinn minn fyrir löngu.

föstudagur, maí 23, 2008

júróvisjón - jibbí!


eins og alþjóð veit er júróvisjón búið að vera í gangi alla vikuna og endahnúturinn verður bundinn á laugardag. æðislegt að íslendingar skyldu loksins komast upp úr undankeppninni, þá fyrst hefur maður afsökun fyrir því að fá sér í aðra tána í tilefni kvöldsins.

ég verð samt að játa að ég mun ekki fara í teitina til örvars og kötlu (það nagar mig efinn, en svona er þetta) heldur ætla ég að vera á eyjunni fögru og nýt keppninnar hér. ég hef samt valið mér land og það er PORTÚGAL. ég vil ekki meina að ég sé undir neinum þrýstingi frá fjölskyldunni heldur er þetta lag algjör snilld og ekki varð það síðra þegar ég fékk að vita um hvað það er. ég kaus það 6x í undankeppninni (hálfskælandi af geðshræringu, svo hrifin var ég) og mun kjósa það sem mest ég má annað kvöld. og allir að kjósa Vânia Fernandes með mér!!!
góða skemmtun!

föstudagur, maí 09, 2008

melspíra

ég lærði nýtt orð hjá gunna mínum um daginn. það er orðið: melspíra. þeir sem þykjast vita hvað þetta er endilega látið ljós ykkar skína!

þriðjudagur, maí 06, 2008

bissí bý

margt hefur á dagana drifið síðan síðast. sólin hefur skinið töluvert þó að þoka og rigning sé normið undanfarnar tvo daga, einmitt þegar ég er búin að rífa fram reiðhjólið og hjóla í vinnuna. austanáttin er erfið á heimleiðinni skal ég segja ykkur.
en eins og ég sagði þá hefur margt gerst og þetta stendur upp úr:
  • guðný fyrrum kennari kom til eyja við aðra konu á lokasýningu hársins.
  • ég fór með hálf-japanskan breta í túristarúnt. hitti hann ásamt vinkonum á pöbbanum og af einstakri gestrisni rúntaði ég með liðið um eyjuna fögru í sól og blíðu daginn eftir.
  • ég sveik lit og fór aðeins í vinnuna á 1. maí. varð að gera það til að vinna upp eftir veikindi. þetta gerir sig víst ekki sjálft.
  • ég fór út í brand í fyrsta sinn í sumar í bongóblíðu. geððegt!
  • ég hitti vinkonurnar og við fórum um hafnarfjörð að leita að álfum/huldufólki.
  • ég borðaði í fyrsta sinn á manni lifandi.
  • ég hitti stóran part móðurfjölskyldunnar í kaffiboði hjá ömmu og afa. ýkt gaman og suma hafði maður hreinlega aldrei séð (börn sem hafa fæðst erlendis).
  • ég fór í 65 ára afmæli tengdapabba og fékk hópknús frá börnunum í veislunni.

framundan er svo 16 ára ammæli hjá litlu syss, vinna eins og skepna til að klára veturinn (verð einmitt næstu kvöld með vinnu heima...ég sé ekki alveg fram úr þessu öllu), reyna að halda heimilinu í horfinu og knúsa gunna minn oft og mikið en hann er kominn í frí framyfir sjómannadag.

bið að heilsa í bili...

fimmtudagur, apríl 24, 2008

sumardagurinn fyrsti


nú er sumarið komið opinberlega á íslandi. á eyjunni fögru birtist sumarið með hægum vindi og mjög lágum skýjum. ég bíð spennt eftir sólinni.
gleðilegt sumar öll sömul!

miðvikudagur, apríl 23, 2008

þar sem ég ligg veik heima og hef ekkert annað að gera en að horfa á varp það er kennt er við sjón þá fór ég ekki varhluta af fréttum í dag. þar bar hæst mótmæli trukkabílstjóra við suðurlandsveg.
ég er hlynnt því að verið sé að mótmæla of háu bensínverði. peningurinn sem maður eyðir í eldsneyti er skandall.
fréttirnar sem ég sá byggðust flestar á því að hallað var á lögguna fyrir fasíska tilburði. ég ætla ekki að leggja dóm á það, enda var ég ekki á staðnum, og ég býst við að þeir hafi brugðist við eins og þeim þótti réttast í stöðunni. að nota meis eða ekki? örugglega erfitt að meta þegar staðan var orðin svona.
en það sem mér fannst mest svekkjandi við þessa atburði var að þarna myndaðist múgæsing sem er þessum málstað ekki til framdráttar. þarna birtist misviturt fólk sem gerði allt (g)eggjað og að auki fór lögregluþjónn á spítala eftir að hafa fengið grjót í höfuðið.
mótmælum áfram en gerum þetta ekki að stríði við lögguna. löggurnar eru jú bara í vinnunni sinni og finnst alveg örugglega ekki gaman að standa í svona veseni.
spurning hvort við eigum ekki bara að bojkotta bensínstöðvarnar í smá tíma, þá kannski lækka olíufélögin þetta bara sjálf án afskipta ríkisins?

þriðjudagur, apríl 22, 2008

lasarus

vorið góða grænt og hlýtt sem græðir víst fjör í dalinn er komið og ég er veik heima... hef sloppið alveg í vetur meðan allir aðrir hafa legið með hor og hósta. ég hélt að flensutímabilið væri búið en nei, ég þurfti að ná í skottið á því...djö.....
og ekki nóg með að ég sé lasin þá er ég ein heima því gunni minn er á sjó. ég þarf þá víst að sjá um mig sjálf og ekki nóg með það hef ég engan til að vorkenna mér.
en gunni minn og þeir á huginn komu heim til að landa um helgina en fóru aftur á laugardagskvöld. þeir eru því tiltölulega nýkomnir á miðin. þeir misstu pokann og því fór það hal fyrir lítið. en svo settu þeir nýja pokann út og pössuðu að stúrmestrássið passaði við höfuðlínustykkið, þannig að þetta hefur haldið ennþá. kassaþvingulegurnar stjórnborðsmegin hafa líka staðið sig meðan badervélarnar vantar sanspanaríum. en ef að svona heldur áfram þá fylla þeir fljótt og vel og landa jafnvel í Shetlandseyjum, það er þó ekki vitað fyrr en í kvöld. en þegar næst verður landað heima ætlar gunni minn að fara í frí þar sem sauðburður er að bresta á í brandinum.
vonandi verð ég laus við flensuna þá...

föstudagur, mars 28, 2008

ég er hér enn

og get ekki annað.
stutt og laggott af undanförnum vikum: fékk frábæra gesti um páskana, lailu og lúlla, gunni minn var heima og allt í lukkunnar velstandi. eva og þór á eyjunni og mikið haft gaman. er búin að fara í fyrstu tuðruferð ársins á lánstuðru í nístingskulda, en djöf... var gaman. vinn sem aldrei fyrr og sel miða í leikhúsinu um helgar. gunni minn farinn aftur á sjó og við kisi kúrum okkur á kvöldin fyrir framan imbann. rólegt sumsé á eyjunni fögru.

föstudagur, mars 14, 2008

frumsýning


í kvöld er l.v. að frumsýna hárið. miðað við það sem ég hef heyrt þá lofar þetta rosalega góðu. ég gat að sjálfsögðu ekki haldið mig alveg frá þessu og vann í leikskránni, hún er líka ein sú flottasta sem gerð hefur verið! svo er ég að græja mig í að fara niðrí miðasölu þar sem ég mun standa vaktina, alla vega í dag og á morgunn og jafnvel oftar. svo mun ég berja augum nýjasta sköpunarverk míns ástkæra leikfélags.

við leikara, söngvara og hljómsveit vil ég segja: breik a legg.

við alla leikfélagsmeðlimi segi ég: gleðilega hátíð!

mánudagur, mars 10, 2008

já, ég veit...langt síðan síðast en andinn hefur bara ekki verið yfir mér undanfarið.
fréttahaukar sem ég þekki vita það að sjálfsögðu að loðnuvertíðin fór aftur í gang en er nú senn að ljúka þar sem hrygning er að bresta á. gunni minn hefur rétt komið heim í mýflugumynd og ég hef varla getað knúsað hann neitt. en þegar vertíð lýkur stoppa þeir kannski eitthvað heima, vonandi fram yfir páska.
ég hef örlítið verið á þvælingi til borgar óttans. hitt þar fjölskyldu og vini í góðum gír. meira að segja splæsti ég í flug um helgina síðustu til að komast í árlegt fjölskyldupartý hjá ömmu og afa. þar var sungið við undirleik míns ástkæra bróður, látið eins og vitleysingar, spjallað og haft það notalegt. alltaf jafnskemmtilegt og frábær hefð sem mér finnst að fleiri eiga að taka þátt í ef þeir mögulega geta. þetta er nefnilega skemmtilegt fólk sem ég á. og það er ekki verra að pabba megin er fjölskyldan helv... skemmtileg líka. hvernig yrði það ef þessu liði yrði öllu smalað saman? það yrði örugglega geggjað enda miklir húmoristar báðum megin og söngfólk. kannski ég fari bara að plana það...

þriðjudagur, febrúar 26, 2008

smá kvart og kvein og svo einn moli í lokin.

jæja. loðnuveiðar bannaðar og fjárhagur heilu byggðarlaganna og alls fólksins sem þar býr er í hættu. miðað við það sem ég hef heyrt þá er ég ekki viss um að hafró-menn séu með réttu ráði en þeir eru kannski að bæta fyrir vitleysuna í sér núna.
gunni minn kom heim um helgina en ég sá nú ekki mikið af honum þar sem hann var að vinna vaktir við bryggju. þeir voru nebbnilega með hellings afla sem að þurfti að vinna....engin loðna, einmitt! og norðmenn fengu að klára kvótann sinn innan okkar lögsögu en ekki skip í okkar flota...þvílíkt bull!
en hann gunni minn er farinn aftur þar sem huginn ve, ásamt 4 öðrum skipum, var fenginn til að kasta fyrir hafró til að geta reiknað út hvort að það sé í alvöru einhver loðna í sjónum. þeir vonandi fá sem mest svo að við þurfum ekki að segja okkur til sveitar.
svo er verið að hækka gjaldskrá herjólfs. ég mun því líklega ekki komast til lands nema svona tvisvar á ári. svo segja okkar háttvirtu embættismenn að ekki þurfi að borga fyrir að ferðast á þjóðvegum landsins. akkúrat! miðað við dóm í ölvunarakstursmáli sem féll í héraðsdómi suðurlands þá er herjólfur þjóðvegur, en þar var maður tekinn við ölvunarakstur (ekki skipstjórinn samt). kallgreyið þurfti að færa bíl á bíladekkinu og hafði víst fengið sér í aðra tána fyrst. þingmenn okkar vestmannaeyinga tala fyrir daufum eyrum á okkar háa alþingi.
jæja. ég er hætt að kvarta. er búin að blása aðeins út og því koma hér gleðifréttir:
magnús bróðir minn og hans kvinna eignuðust dóttur í gær. þetta er fjórða stúlkan sem bróður mínum fæðist og því ekki að ósekju að ég vilji að hann stofni hljómsveit sem heitir maggi og stelpnastóðið. innilega til hamingju með litlu dúlluna! ég hlakka til að sjá ykkur og nýjasta fjölskyldumeðliminn!

miðvikudagur, febrúar 20, 2008

20.02.2002

fyrir sex árum í dag vildi enginn giftast mér. því brá ég á það ráð að æða inn á skrifstofu sýsla og fá pappíra til að skrá okkur hjónaleysin í sambúð, þvingaði gunna minn til að skrifa undir og þar með urðum við löggilt kærustupar. ástæðan fyrir æðibunuganginum í mér var þessi flotta dagsetning. næst verður hægt að lesa dagsetningu jafnt afturábak sem áfram árið 21.12.2112. kannski vill einhver giftast mér þá en þá er líklegt að maður verði orðinn soldið hrumur...
alla vega, gunni minn og ég: til hamingju með að hafa þolað hvort annað löglega í 6 ár, að ég tali nú ekki um tímann þar á undan!

þriðjudagur, febrúar 19, 2008

af loðnu og öðrum loðnum kvikindum


það hefur margt lítið gerst undanfarið. við gunni minn höfum haft það notalegt en nú er hann farinn aftur á sjó eftir rúmlega viku inniveru. þeir strákarnir á huginn eru farnir að veiða loðnu en því miður er ég ekki viss hvort notað sé troll eða nót við veiðarnar. nú þurfa allir sem ég þekki að henda sér á hnén (erla, þú mátt segja nén) og biðja alla vætti um góða vertíð. þeir sem stjórna eru nefnilega að hóta að blása loðnuveiði alfarið af þó svo að norðmenn séu búnir að klára sinn kvóta hér nálægt íslandi... maður verður víst bara að bíða og vona...
mér tókst að ná mér í flensuskít um það leyti sem gunni minn fór. hundfúlt að vera lasin og ein heima, enginn til að stjana við mann. en sem betur fer er ég hraust (lesist: þrjósk og ómissandi) og hef samt mætt í vinnu. ég er semsagt að ná þessu úr mér með vítamín- og panódíl-áti og mikilli tedrykkju.

hér er farið að snjóa eina ferðina enn en ég vona að þetta verði ekki jafn svæsið og síðast. en í tilefni þessa langar mig að kasta fram fyrriparti úr vísu:

fannhvít er fönnin bjarta,
fellur sem best hún getur.


og botniði nú!

þriðjudagur, febrúar 12, 2008

mont!


glöggir áhorfendur kvöldfrétta rúv í dag hafa væntanlega séð frétt um söfnun nemenda 5. bekkja hamarsskóla fyrir rauða krossinn. þarna voru börnin mín (og hinna kennaranna líka) að sýna afrakstur söfnunar til handa skólabörnum í gambíu. þau söfnuðu skólatöskum, pennaveskjum, litum, blýöntum, bókum, fötum og fleiru nytsamlegu. þessi söfnun var í tengslum við átak suðurlandsdeilda rauða krossins og við fengum að taka þátt. forsprakki rauða krossdeildar vestmannaeyja, hermann einarsson alls staðar, kom síðastliðinn föstudag og tók við gjöfunum og hélt smá fyrirlestur í leiðinni.

fréttamaður rúv í eyjum kom og myndaði þetta allt í bak og fyrir og tók viðtal við tvo krakka. ég er að rifna úr stolti yfir hvað krakkarnir mínir voru duglegir og gjafmildir. ekki var heldur verra að þau skyldu komast í sjónvarpið fyrir vikið.

laugardagur, febrúar 09, 2008

gunni minn þurfti svo ekkert að moka innkeyrsluna eftir allt saman. það byrjaði að hlána eiginlega um leið og hann kom. en mikið var ég fegin að hafa hann heima í veðrinu í gær, þá vissi ég líka að hann væri óhultur en ekki að berjast í brjáluðu veðri einhvers staðar úti á sjó. svo bjóst ég reglulega við því að rúðan í stofunni kæmi hreinlega inn! jeminn eini! ég hefði ekki boðið í það að vera ein ef það hefði gerst. en við náðum að hafa það huggulegt í rafmagnsleysinu sem veðrið olli.
gunni fór svo í björgunaraðgerðir áðan en gleraugun hans stjána nínon fuku út í sjó í gær niðri við höfn. að sjálfsögðu tókst gunna kafara að finna þau! launin sem hann þiggur munu líklega verða í formi humars sem er nottlega bara frábært. það er yndislegt að búa með svona klárum kalli!
svo er þorrablót hugins ve í kvöld. þeir ákváðu það peyjarnir á heimstíminu í vikunni. það verður örugglega gaman og fínt að fá hákarl. ég hef nefnilega setið á mér í búðunum hér að versla slíkt. gunna finnst lyktin líka vond og svo á ég bágt með að borða heilan bita, vil bara smá smakk. sum sé munum við gunni blóta þorranum í kvöld. et, drekk og ver glaðr!

miðvikudagur, febrúar 06, 2008

enn snjóar í eyjum


og gunni minn á heimleið til að moka innkeyrsluna!

reyndar er það ekki eina ástæðan. það er víst búið að vera eitthvað bilerí um borð og höfuðlínustykkið (?) hefur styst mikið eftir hverja viðgerðina af annarri. þeir koma því heim til að laga það sem laga þarf og halda þorrablót í leiðinni. við getum því sungið með góðri samvisku: nú er frost á fróni því allur þessi snjór og kuldi er víst ekki á undanhaldi.

það er því glöð drífa sem bloggar í kvöld!

sunnudagur, febrúar 03, 2008

skyndihraðahindrun


enn er snjór á eyjunni fögru eins og víðar um landið. á fimmtudag var hellingssnjór en hífandi rok þannig að það var rosalegur skafrenningur. við bjartsýnu kennararnir í 5. bekk ætluðum að fara með liðið í sleðaferð. það gekk ekki...

svo þegar ég kom heim þá hélt ég að gaui hefði komið og mokað fyrir mig innkeyrsluna. svo reyndist ekki vera, megnið af snjónum hafði fokið í burtu. það sem varð eftir myndaði þessa fínu hraðahindrun fyrir framan bílskúrinn. ég hef aldrei átt hraðahindrun áður, þetta er ágætis tilbreyting og aldrei að vita nema ég fjárfesti í einni varanlegri þegar snjóa leysir.

miðvikudagur, janúar 30, 2008

ammæli


hann gunni minn á afmæli í dag og auðvitað anna systir hans líka. ég veit ekki alveg með hana en hann verður sætari með hverju árinu sem líður og svei mér ef ég er ekki alveg jafn skotin í honum núna eins og fyrst, kannski meira?

hann eyðir deginum sínum um borð í huginn ve og vonandi verða strákarnir góðir við hann. ég er viss um að kokkurinn hann eysteinn muni framreiða einhverjar dýrindis krásir.

elsku gunni minn innilega til hamingju með daginn! ég epla þig!

þriðjudagur, janúar 29, 2008

jógi björn


ég byrjaði á jóganámskeiði ekki alls fyrir löngu. ég hef alltaf verið spennt fyrir því að prófa og loksins fékk ég tækifæri til þess. mér finnst þetta alveg frábært og sé sjálfa mig bráðum svífandi fyrir ofan gólfið í lótusstellingunni. en í tímanum í dag þá voru nýjar æfingar sem vinna með liðleika en það verður að játast að ég er jafn stirð og solla. þess vegna líður mér eins og ég sé jógi björn, soltið klunnaleg og finnst gott að borða mat sem aðrir útbúa. kannast fleiri við þetta?


en hér er gáta. man einhver hvað litli vinur hans yogi bear heitir?

mánudagur, janúar 28, 2008

gunni minn fór aftur á sjóinn í dag og ég er aftur farin að pirra mig á snjókomunni. planið var að þeir huginsmenn færu út í gærkvöldi en herjólfur fór ekki í gær og tveir áhafnarmeðlimir fastir uppi á landi. ég er þeim þakklát fyrir það því að gunni minn var örlítið lengur hjá mér.
kannski ég fari að hundskast upp á land til að lyfta mér upp meðan gunni aflar þjóðinni og okkur tekna? það er kominn rúmur mánuður síðan síðast, alveg kominn tími á þetta...

laugardagur, janúar 26, 2008


enn snjóar en mér er alveg sama því að gunni minn er heima. hann kom í land á fimmtudagsmorgunn um 5 leytið og fer ekki aftur fyrr en á morgunn, sunnudag. reyndar hefur hann verið að vinna um borð þannig að ég hef ekki haft hann alveg útaf fyrir mig (snökt).
þetta stopp er víst lengra heldur en venjulegt þar sem það þarf að gera við nótina og bindivélina (það er samt ekki verið að heyja um borð) og svoleiðis. og af því þeir eru að veiða milli færeyja og skotlands er ólíklegt að þeir landi heima næst. það verður væntanlega ekki fyrr en á loðnunni. ég þarf sumsé að bíta á axlirnar og þrauka.

í lokin vil ég óska öllum bændum til hamingju með daginn í gær.

miðvikudagur, janúar 23, 2008

23. janúar 1973

í tilefni þess að eldgos hófst á Heimaey fyrir 35 árum langar mig að benda ykkur á þennan vef hérna: http://heimaslod.is/
þar skuluð þið velja: Byggðin undir hrauninu og þá getið þið t.d. séð húsið mitt fyrir og eftir gos.

þriðjudagur, janúar 22, 2008

ammæli!

ég á ammæli í dag
ég á ammæli í dag
ég á ammæli sjááálf
ég á ammæli í dag...

mánudagur, janúar 21, 2008

vedur.is

ég held ég geti bráðum breytt nafninu á kennarasleikjunni í vedur.is. ég er nefnilega orðin eins og gamall kall og tala bara um veðrið og hægðir og lægðir.
veðrið á íslandi í dag er bara rugl. það er farið að hvessa duglega hér á eyjunni fögru og búið að rigna síðan fyrir hádegi. færðin er orðin slæm, aftur. ég er farin að velta fyrir mér hvort það verði skóli á morgunn. það er hætt við að léttari börn og mjónur eins og ég fjúki út á hafsauga í verstu hviðunum í fyrramálið. maður veltir þessu fyrir sér...

föstudagur, janúar 18, 2008

enn snjóar!

ja hérna hér! það snjóar bara og snjóar, þetta er að verða eins og fyrir austan í gamla daga! ætli ég neyðist ekki til að taka fram skófluna eina ferðina enn...djö... ég er alla vega fegin að hafa hætt við að fara upp á land úr því að færðin ætlar ekki að breytast. það verður fínt að kúra sig inni í fannferginu og horfa á em í handbolta um helgina. ég er sannfærð um að strákarnir okkar geti ekki orðið lélegri en í gær. áfram ísland! kannski kíkja líka eva og þór, jafnvel í einn bjór, hvað veit maður?

miðvikudagur, janúar 16, 2008

ég er orðin grasekkja enn á ný. gunni minn fór á sjó á laugardagskvöldið. eins og venjulega var það afspyrnu fúlt. ég hef samt haft lítinn tíma til að sakna hans þar sem ég er á haus í vinnunni þessa dagana. deddlænið fyrir einkunnirnar dregst nær og nær. maður þarf víst að klára dæmið þannig að það er unnið fram að kvöldmat á daginn uppi í skóla og svo heima á kvöldin, ég fór meira að segja laugardag og sunnudag í vinnuna líka. en þessu fer að ljúka. einkunnablöðin skulu prentuð út seinni partinn á morgunn.
þeir sem hafa fylgst með veðrinu undanfarið hafa væntanlega áttað sig á því að það hefur verið örlítil ofankoma undanfarna daga. við höfum ekki farið varhluta af því hér á eyjunni fögru. það hefur kyngt niður snjó sem aldrei fyrr og ég hef þurft að draga fram skófluna tvo daga í röð. í gær til að moka bílnum inn í skúr og svo í dag til að moka bílinn út úr skúrnum. ég vonast til að komast á kagganum í vinnuna á morgunn. það gekk brösulega að ganga í vinnuna í morgunn þar sem ekki var búið að ryðja af gangstéttum heldur bara á þær.
ég fór í minn fyrsta yoga tíma í gær í bylnum. geggjað...er ekki frá því að þetta henti mér mjög vel. ég bíð alla vega spennt eftir framhaldinu. namaste.
núna hef ég smá tíma til að sakna gunna og bíða eftir því að hann hringi. ég ætla mér að nýta mér þessar mínútur. ble....

fimmtudagur, janúar 10, 2008

jæja þá er maður byrjaður að vinna og það af krafti! jedúddamía hvað það er mikið að gera hjá mér...shift.
annarskipti eru framundan, sem og foreldrafundir. það þýðir að ég er endalaust að fara yfir próf þessa dagana, meta verkefni, setja einkunnir inn í mentorkerfið auk þess að undirbúa hefðbundna kennslu og auðvitað að kenna. ég sé fram á að vera að vinna meirihluta helgarinnar. ég þreytist bara við tilhugsunina. helgarnar eiga að vera notaðar í að hlaða batteríin sem eru fljót að eyðast upp þegar aldurinn færist yfir... (ég á afmæli bráðum, sko...)

laugardagur, janúar 05, 2008

af áramótum og annarri vitleysu

gleðilegt ár allir nær og fjær og takk fyrir það liðna.
við gunni minn áttum góð áramót. það var farið á brennu kl. 17.00 og að sjálfsögðu var þessi líka fína flugeldasýning í boði björgó. svo fórum við heim og dunduðum okkur við að gera klárt fyrir matinn. að fenginni reynslu vissum við að ekki yrði nauðsynlegt að flýta sér þannig að við undirbjuggum humarinn, sturtuðum okkur og borðuðum svo um átta. maturinn heppnaðist sérstaklega vel hjá okkur og máltíðin einstaklega rómó eins og fyrr.
svo settumst við fyrir framan sjónvarpið og biðum eftir hjalla og beggu. að venju komu þau fyrir skaupið og við vorum öll sammála um að þetta hafi verið hið fínasta skaup. ágætis tilbreyting að minna var gert grín að stjórnmálamönnum en oft áður. kannski taka menn þetta aðeins til sín og minnka þjóðrembinginn.
eftir skaupið kom snorri og fljótlega urðu þeir strákarnir alveg snar þegar líða tók að miðnætti. þá voru borin út heilu tonnin af flugeldum. sem dæmi má nefna að fjórar risakökur voru settar út á götu á bretti fyrir nú utan allt hitt sem var sprengt. ég hef heyrt að nágrannarnir séu að velta fyrir sér hvaða geðsjúklingar búi á 24. þetta var sumsé allt voða flott og í hamaganginum missti ég af því að sjá þegar gamla árið fór og nýja kom í sjónvarpinu, í fyrsta skipti að eilífu held ég. begga vill meina að það boði gott fyrir næsta ár, ég treysti því.
svo fóru menn að mæta í partý þegar leið á nóttina og hér varð heljarinnar geim. síðustu gestirnir fóru þó óvenjusnemma eða uppúr fimm, en við hjónaleysin nenntum ekki á ball.
svo hefur vikan verið róleg þar sem ég byrja ekki að vinna fyrr en á mánudag. við reyndar erum búin að taka niður skrautið, gerðum það í dag, þar sem vestmannaeyingar eru klikk og halda þrettándann í dag. jólaljósin fá þó að vera fram til 23. janúar enda komin hefð fyrir því.
afmælisbörn janúarmánaðar fá hér kveðju:
elín y, kristjana, bibbi, laila, þríburarnir, andrea, eva vals, ég sjálf, örvar, bergný rokk, gunni minn og anna stefanía og síðast en ekki síst fanney.
ég veit að ég hef verið löt við að óska fólki til hamingju með daginn undanfarna mánuði en : til hamingju!