föstudagur, desember 28, 2007

jólin búin

eða svo gott sem. eru þau eiginlega ekki búin þegar maður er búinn að opna pakkana og konfektið er búið? kannski ekki alveg.
mamma, lúa og pedro fóru í morgunn. það er búið að vera alveg frábært að hafa þau. aðfangadagur var hrikanæs. rólegheit hérna heima, gunni minn fór með unglingana að keyra út restina af jólakortunum, við mamma og gunni elduðum svo matinn (mamma sauð hrygginn og gerði saltfisk handa piltinum, ég sá um sósuna og gljáann á hrygginn, gunni gerði kartöflurnar...), svo var etið af hjartans lyst með messuna hljómandi í eyrunum og svo var ráðist í pakkana.
ég hef ekki ennþá reiknað út hvort við höfum komið út í plús en fullt fengum við. lúlú fékk nú samt flesta pakkana, svona er að vera yngstur....djö...
svo höfum við aðallega legið í leti og étið. við höfðum ekki orku til að fara til tengdó í kaffi á aðfangadagskvöld en fórum svo í hangiket til þeirra á jóladag. mjög gaman enda anna stefanía og pétur og hans slekkti hjá tengdó.
svo buðum við þeim í kaffi í gær svona af því að okkar gestir voru að fara í dag og þau líka. þá hélt átið áfram að sjálfsögðu og mamma linnti ekki látum fyrr en hún fékk að baka u.þ.b. hundrað vöfflur með kaffinu. þannig að ef einhverjum finnast kaldar dagsgamlar vöfflur góðar, verið velkomin!
nú fer að hefjast undirbúningur fyrir áramótin. við gunni minn eigum eftir að ákveða matseðilinn en við finnum örugglega eitthvað gott en við verðum bara tvö í mat. þetta verður eflaust mjög rómantískt hjá okkur eins og fyrir tveimur árum þegar við vorum fyrstu áramótin hér á ásaveginum. ég hlakka alla vega mikið til. svo eins og lög gera ráð fyrir verður örugglega stuð á okkur þegar líða tekur á kvöldið.
hafið það gott um áramótin og gangið fallega um gleðinnar dyr!

sunnudagur, desember 23, 2007

korter í jól


nú eru jólin alveg að bresta á. búið að gæða sér á dýrindis vel kæstri skötu, skreyta tréð, rölta í bænum í frostinu og allt tilbúið nema bara eftir að fara í jólabaðið og elda jólasteikina.

mamma, lú og pedro eru í heimsókn þannig að nú er hamagangur á hóli. mamma hefur verið að hamast við að baka meðan lú og pilturinn hafa aðallega verið unglingaveik. það er samt ofsa gaman að hafa gesti og pakkahrúgan undir trénu er stór.

ég vil bara óska öllum gleðilegra jóla eða boas festas eins og ku vera sagt á portúgölsku.
kveðja frá stóðinu á ásaveginum!

sunnudagur, desember 09, 2007

desember...


jæja, desember genginn í garð og jólin að bresta á. snjórinn útifyrir gerir umhverfið líka enn jólalegra og maður er farinn að hlakka mikið til. ég er búin að þruma upp seríunum og aðventuljósinu og eitt og eitt skraut er borið úr geymslunni og sett á sinn stað.
magnað hvað maður verður fljótt fastheldin á það hvar jólaskrautið á að vera og þetta eru bara þriðju jólin hér á ásaveginum.
mamma og lúa verða hjá okkur um jólin eins og í fyrra en þær ætla svo til borgar óttans fyrir áramót. það verður bara gaman. ég hef sett mömmu það fyrir að kaupa skötuna og býst þar af leiðandi við því að hún verði vel kæst og góð. annars verður þetta hefðbundið hjá okkur. hamborgarhryggur á aðfangadag og hangikjet hjá tengdó á jóladag. þau verða reyndar heima hjá sér í nýja húsinu á aðfangadag en ekki hjá okkur eins og tvö síðustu ár. það verður líka fullt hús hjá þeim, anna stefanía kemur frá sverige og pétur og fjölskylda kemur úr firði sem kenndur eru við höfn.
nú þarf maður bara að fara að versla jólapappír og kort, malt og appelsín, jólatré og kerti, makkintoss og mandarínur og þá er maður klár fyrir hátíðarnar.