föstudagur, nóvember 28, 2008

síðasti vinnudagurinn


síðasti vinnudagurinn í dag. frá og með mánudeginum er ég komin í óléttuorlof þar til A og B fæðast og þá byrjar fæðingarorlofið. þetta er skrítin tilfinning og það verður ennþá skrítnara að þurfa ekki að fara á fætur kl. 7.00 á hverjum virkum morgni, ekki ósvipað og að vera í verkfalli. en ég ætla mér að taka mark á heilbrigðisstarfsfólkinu og hætta meðan allt er ennþá í góðu og ég get einbeitt mér að því að hvílast og græja og gera fyrir komu krílanna. læknirinn sem skrifaði vottorðið fyrir mig sagði að hann hefði viljað að ég hefði hætt á 20 viku, þ.e. fyrir 2 mánuðum síðan. þá hefði ég nú örugglega misst vitið eða þá að bjallan sem gunni keypti um daginn væri komin á götuna nú þegar...

en tvíbbarnir þroskast vel og miðað við mælinguna í dag þá verða þetta stór og stæðileg börn þegar þar að kemur. alla vega voru þau yfir kúrfunni en það gæti nú hægst á stækkuninni fljótlega þegar plássið í bumbunni minnkar. ég er farin að finna fyrir því að plássið er orðið lítið því að iðullega er annar hvor tvíburinn eða báðir í feykifjöri og sprikla sem mest þeir mega og þá gengur bumban í bylgjum. það er nú bara gaman, meðan ég hef svefnfrið að minnsta kosti.

sunnudagur, nóvember 23, 2008

22. nóv.


í gær fattaði ég að það voru nákvæmlega 3 mánuðir í áætlaðan fæðingardag litlu twillinganna. ég horfði niður á bumbuna og dæsti því ég er farin að líta út eins og hvalur nú þegar.

það er sagt að tvíburamömmur séu orðnar jafnsverar á 29. viku og einburamömmur á 40. og síðustu vikunni. það verður hjá mér í þar næstu viku...og þessar elskur þarna inni eru farnar að láta mömmu sína finna fyrir því. ég þarf að vakna til að pissa svona þrisvar á nóttu og að bylta sér í rúminu er orðin ný íþrótt, ég á orðið erfitt með að fara í sturtu því ég þreytist svo að standa og bisa þetta, óléttufötin sem ég á eða hef til afnota eru að verða of lítil, ég hef sloppið við brjóstsviða en nábítur er daglegt brauð, ef ég dirfist að standa meira en góðu hófi gegnir í vinnunni þá langar mig að gráta vegna þreytu í fótunum, ég þarf að leggja mig á daginn til að geta vakað til 22.00 (ókei, það er kannski ekki svo slæmt) og innyflin eru notuð fyrir boxpúða allan liðlangan daginn.

útaf öllu þessu þá fer að styttast í að ég hætti að vinna, eins ómissandi og mér finnst ég vera. jæja, ég er ómissandi fyrir krílin mín í bumbunni og ætla að njóta þess þar til þau koma að geta ekki sofið, staðið eða farið í sturtu...

sunnudagur, nóvember 16, 2008

facebook

ég hef komist að því að mér finnst facebook ekkert rosalega skemmtilegt. ég er jú með facebook síðu en hef takmarkaðan tíma til að hanga á netinu. ástæðan fyrir því að mér finnst þetta ekki mjög skemmtilegt: það eru allir hættir að blogga. í staðinn eru menn og konur að taka endalausar kannanir á því hvaða simpson persóna þeir/þær eru, hvaða grænmeti þau eru, hvort þau séu ung í anda og senda manni boð í alls konar vitleysu sem ég vil ekki taka þátt í. það er t.d. gang wars, hver er besti vinurinn á facebook, besti partýhaldarinn og ég veit ekki hvað.
vissulega er gaman að rekast þarna á fólk sem maður hefur ekki séð í áravís. það fylgja hins vegar ekki miklar upplýsingar um viðkomandi; hvað hefur verið að gerast, hvað fólk er að hugsa o.s.frv. það finnst mér skemmtilegra...
kannski er ég bara svona takmörkuð að ég sé ekki möguleikana í þessu öllu en ég hef hitt fleiri sem svipað er ástatt um og veit því að ég er ekki eini asninn í netheimum sem skilur ekki hvað all the fuzz is about...

laugardagur, nóvember 15, 2008

namminamm...


ég er að fara að baka jólasmákökurnar með sæfinnu. þetta er orðin jólahefð hjá okkur en er frekar snemma í ár sökum bumbustækkunar af minni hálfu, það verður erfitt að segja hvernig ástandið á mér verður um miðjan desember (kannski jafnbreið á þverveg eins og langveg?). ég er einmitt að fara að kaupa hráefnið núna og ætla að líta eftir nokkrum jólagjöfum í leiðinni.

ég reyndar uppgötvaði það í gær, mér til mikillar gleði, að ég er langt komin með jólagjafakaupin í ár. var nebblega búin að gleyma fyrirhyggju minni í vor á bókamarkaðnum í perlunni og svo gerði ég líka góð kaup á tónlistarmarkaði um daginn.

jiiii, það vantar bara að ég fari að prjóna og taka slátur og sulta þá er ég orðin ýkt mikil húsmóðir og almennilega fyrirhyggjusöm að auki.

laugardagur, nóvember 01, 2008


þessa dagana eru allir að tala um ástandið á íslandi í dag. ég er orðin hundþreytt á því. við getum talað okkur blá í framan en það breytir engu um hvað þessir háu herrar og frúr á alþingi og í öllum þessum nefndum og ráðum gera.

hins vegar er ég mjög hrifin af framtaki þeirra sem settu á fót síðuna http://www.indefense.is/ þarna er málpípa fyrir almúgan að tjá sig um gjörðir herra browns og herra darlings sem hjálpuðu til við að gera vondar aðstæður verri. ekki er heldur verra að húmorinn er í fyrirrúmi. stúlkan á myndinni er dóttir kunningjakonu minnar og eins og sjá má er hún ekki ánægð með kumpánana darling og brown.