föstudagur, september 28, 2007

undanfarið...

gunni minn komst heilu og höldnu heim í heiðardalinn. tók þrjár flugvélar, rútu og bát til að komast til sinnar heittelskuðu (sko mín...). hann kom hlaðinn sælgæti úr tollinum sem við og gestirnir okkar, laila og lúlli, gátum gætt okkur á. það var rosagaman hjá okkur um síðustu helgi enda ekki um hverja helgi sem maður fær svona skemmtilega gesti. við borðuðum mikið af góðum mat, hlógum mikið, spiluðum, teiknuðum og ég veit ekki hvað og hvað. ýkt gaman! takk fyrir komuna elsku edlin mín tvö.
annars hefur verið rólegt í kotinu síðan gunni minn kom heim. skítaveður þannig að við höfum að mestu hangið inni. gunni minn er reyndar as ví spík að hjálpa mömmu hans ella að standsetja íbúðina sem hún var að kaupa sér, honum leiðist sko ekki í landlegunni.
á morgunn er svo lundaballið. mikið gaman og mikið grín! árshátíð bjargveiðimanna, eins og þetta er kallað, klikkar sko ekki. þetta verður nottlega ekki eins flott og hjá bröndurunum í fyrra, þrátt fyrir stór orð þeirra elliðaeyjinga, en gaman samt.
sí jú...

fimmtudagur, september 20, 2007


sjáið bara hvað gunni minn er duglegur!!! fékk þessa mynd af bloggsíðu hugins.
núna er hann samt örugglega bara að slappa af á leið í land í heja norge og hugsar hlýtt til mín....

miðvikudagur, september 19, 2007

á leið í land

jahá! gunni minn er á leið í land. þeir eru komnir með nóg til að landa og stefna nú hraðbyri á noreg eftir að hafa verið að mokfiska í norskri landhelgi. gunni minn, ásamt fleirum, er á leið í frí og þeir sem verða eftir á norskri grundu munu fljúga heim á föstudag. jibbí! hann nær væntanlega seinni herjólfi og getur því verið gestgjafi með mér þegar laila og lúlli láta sjá sig um helgina. það verður sko gaman! jiiiiiiii....hvað ég hlakka til!

sunnudagur, september 16, 2007

róleg helgi

ótrúlegt en satt þá var þessi texti sem ég setti inn síðast helber lygi, lífið er ekki alveg svona fjörugt þegar gunni minn er á sjó.
á föstudag kíkti ég reyndar, ásamt fleirum, til snorra, sötraði smá, endaði með liðinu á lundanum en fannst ekkert gaman og fór heim.
laugardagurinn var bara rólegur. fór samt með ástu steinunni og gauja að skoða hvalina sem villtust inn í höfnina. það var gaman en ég sárvorkenndi kvikindunum að svamla í olíubrákinni og ruslinu sem safnast oft saman inn í friðarhöfn. gaui og ásta steinunn fóru svo upp á land þar sem ferð þeirra er heitið til danaveldis að heimsækja fátæka námsmenn, held þau hafi tekið með sér 30 kíló af fiski til að gefa. svo fór ég í mat til tengdó og kíkti svo í kaffi til ölmu og frigga.
það sem af er sunnudeginum þá hef ég rolast á náttfötunum, horft á video og beðið eftir því að gunni minn hringi. eftir það ætla ég út í góða veðrið í göngu. svo er ég boðin í mat til tengdó í kvöld. helv.... fínt því þá þarf ég ekki að elda. finnst það aldrei mjög gaman, hvað þá þegar ég er ein í kotinu.
ég er búin að gleyma afmælisbörnum september mánaðar (og ágústmánaðar líka ef út í það er farið) en til hamingju sunna, lúlli, thelma rut (sem fæddist á mjög eftirminnilegu kvöldi fyrir 15 árum, fékk fréttirnar í gegnum almenningssíma í miðbæ rvk), sæfinna, katla og allir hinir.
jæja, ég ætla að fara og bíða við símann...

fimmtudagur, september 13, 2007

titillag plötunnar komið...

eða sko textinn. ég á eftir að ræða við tónskáld um framhaldið. en hvað finnst ykkur annars? er þetta að gera sig?


Þegar hann er á sjó...

Hann er farinn á sjó
og ekkert nú mig tefur.
Ég stefni að því að verða mjó
Áður en hann næst um mig örmum vefur.

Ekkert mig nú stoppar
ég sjoppa eins og svín.
Vísakortið um veskið hoppar,
að vera ein er ekkert grín
Viðlag:
Þegar hann er á sjó, la la la
Hitti ég stelpurnar og djamma, la la la
Blikka gæjana, jó!
En alein heim alltaf þramma

Djammið fer í forgang
aftur og aftur á pöbbann fer.
Ég borga annan umgang
viltu ekki djamma með mér?
Viðlag

Þegar hann er á leið í land
verð ég að skríða saman.
Setja allt húsið í stand
og flikka mig upp í framan.
Viðlag

Ég bíð á bryggjunni og hann kyssi
þegar báturinn er bundinn við land.
Ef hann nú bara vissi
að djammskútunni sigldi í strand
Einu sinni enn......

þriðjudagur, september 11, 2007

sjómannskonulíf...

þrátt fyrir miklar væntingar um pysjubjarganir í síðustu færslu hafa ekki fleiri pysjur ratað mína leið. ég hef nú heldur ekkert verið út um allan bæ allar nætur til að hafa upp á þessum greyjum, mér finnst alltof gott að kúra mig inni þegar það er þoka, rigning og rok. ég er einmitt farin að hafa áhyggjur af því að ég sé að verða mosavaxin ef veðrið heldur svona áfram, þ.e. rigning og aftur rigning. hélt að gróðurinn væri að fara að leggjast í dvala og þyrfti því ekki á allri þessari vætu að halda, svei!
annars er gunni minn farinn á sjó aftur. hann er þó kominn í aðra áhöfn, á huginn ve. þeir fóru á aðfararnótt mánudags frá eskifirði og verða komnir á miðin eftir u.þ.b. 8 klst. þeir eru að fara norður í rassgat eins og það kallast eða smuguna. þetta er svo norðarlega að það verður mun styttra fyrir þá að landa í tromsö í norge heldur en að sigla alla leið til íslands. veiði hefur ekki verið mikil undanfarið hjá hinum sem hafa verið við veiðar en það var að fréttast af einhverri síld þarna norðurfrá þannig að nú er bara að krossleggja putta svo að gunni minn þurfi nú ekki að láta sér leiðast þarna um borð. hann kemur vonandi heim næst um mánaðarmótin, ekki nema rúmar tvær vikur í það. það er samt erfitt að vera heima og sakna hans alla daga, svona er sjómannskonulífið...
já sjómannskonulífið. af hverju hafa ekki verið samin lög um það??? ég skora nú á tónelska að setja saman góðan slagara um það hversu mikið stuð það er að vera heima meðan kallinn er á sjó, það væri örugglega hægt að semja nokkur og setja á disk. titlar eins og: ég hengi út þvottinn eða hvar landar hann næst? eða saumaklúbbur í kvöld gætu orðið ódauðlegir. við ásta steinunn gætum jafnvel samið texta ef einhver kemur með grípandi laglínu. áhugasamir látið vita!

laugardagur, september 01, 2007

pysja!


það var að gerast soltið merkilegt! ég var að ná minni fyrstu lundapysju!

ég er búin að búa í eyjum í 8 ár, oft farið á pysjuveiðar en aldrei náð neinni sjálf enda algjör klaufi og hálfhrædd um að þessi grey geti meitt mig, það er samt eiginlega ekki hægt. elín sá um þetta fyrstu tvö árin (var samt alltaf með vettlinga við að grípa þær) og svo hefur gunni minn náð þeim fyrir mig. en svo fæ ég að frelsa þær...

núna áðan var ég hjá ástu steinunni og ætlaði mér að labba heim í rólegheitunum og sá pysju við útihurðina hennar. hún bað mig að taka hana og svei mér þá, þá náði ég henni! þrammaði með hana í lúkunum heim og kom henni kyrfilega fyrir í gamalli þvottakörfu úti í bílskúr. hún mun fá frelsið á morgunn.

þetta er fyrsta pysjan sem ég sé í ár og ekki dregur það úr gleðinni að hafa náð henni. hún er líka alveg tilbúin, ekki eins og pysjurnar sem ég hef séð undanfarin ár sem hafa verið mikið dúnaðar og hálf aumingjalegar.

menn hafa haft áhyggjur af lundastofninum og þá sérstaklega afkomu pysjanna, ég held að þeir geti hætt að hafa áhyggjur fyrst ég er byrjuð í björgunarstörfunum!

myndin sem fylgir með er ekki af pysjunni minni heldur af einni vel dúnaðri sem ég fann á vefnum. ég varð bara að deila þessu með ykkur!