þriðjudagur, febrúar 26, 2008

smá kvart og kvein og svo einn moli í lokin.

jæja. loðnuveiðar bannaðar og fjárhagur heilu byggðarlaganna og alls fólksins sem þar býr er í hættu. miðað við það sem ég hef heyrt þá er ég ekki viss um að hafró-menn séu með réttu ráði en þeir eru kannski að bæta fyrir vitleysuna í sér núna.
gunni minn kom heim um helgina en ég sá nú ekki mikið af honum þar sem hann var að vinna vaktir við bryggju. þeir voru nebbnilega með hellings afla sem að þurfti að vinna....engin loðna, einmitt! og norðmenn fengu að klára kvótann sinn innan okkar lögsögu en ekki skip í okkar flota...þvílíkt bull!
en hann gunni minn er farinn aftur þar sem huginn ve, ásamt 4 öðrum skipum, var fenginn til að kasta fyrir hafró til að geta reiknað út hvort að það sé í alvöru einhver loðna í sjónum. þeir vonandi fá sem mest svo að við þurfum ekki að segja okkur til sveitar.
svo er verið að hækka gjaldskrá herjólfs. ég mun því líklega ekki komast til lands nema svona tvisvar á ári. svo segja okkar háttvirtu embættismenn að ekki þurfi að borga fyrir að ferðast á þjóðvegum landsins. akkúrat! miðað við dóm í ölvunarakstursmáli sem féll í héraðsdómi suðurlands þá er herjólfur þjóðvegur, en þar var maður tekinn við ölvunarakstur (ekki skipstjórinn samt). kallgreyið þurfti að færa bíl á bíladekkinu og hafði víst fengið sér í aðra tána fyrst. þingmenn okkar vestmannaeyinga tala fyrir daufum eyrum á okkar háa alþingi.
jæja. ég er hætt að kvarta. er búin að blása aðeins út og því koma hér gleðifréttir:
magnús bróðir minn og hans kvinna eignuðust dóttur í gær. þetta er fjórða stúlkan sem bróður mínum fæðist og því ekki að ósekju að ég vilji að hann stofni hljómsveit sem heitir maggi og stelpnastóðið. innilega til hamingju með litlu dúlluna! ég hlakka til að sjá ykkur og nýjasta fjölskyldumeðliminn!

miðvikudagur, febrúar 20, 2008

20.02.2002

fyrir sex árum í dag vildi enginn giftast mér. því brá ég á það ráð að æða inn á skrifstofu sýsla og fá pappíra til að skrá okkur hjónaleysin í sambúð, þvingaði gunna minn til að skrifa undir og þar með urðum við löggilt kærustupar. ástæðan fyrir æðibunuganginum í mér var þessi flotta dagsetning. næst verður hægt að lesa dagsetningu jafnt afturábak sem áfram árið 21.12.2112. kannski vill einhver giftast mér þá en þá er líklegt að maður verði orðinn soldið hrumur...
alla vega, gunni minn og ég: til hamingju með að hafa þolað hvort annað löglega í 6 ár, að ég tali nú ekki um tímann þar á undan!

þriðjudagur, febrúar 19, 2008

af loðnu og öðrum loðnum kvikindum


það hefur margt lítið gerst undanfarið. við gunni minn höfum haft það notalegt en nú er hann farinn aftur á sjó eftir rúmlega viku inniveru. þeir strákarnir á huginn eru farnir að veiða loðnu en því miður er ég ekki viss hvort notað sé troll eða nót við veiðarnar. nú þurfa allir sem ég þekki að henda sér á hnén (erla, þú mátt segja nén) og biðja alla vætti um góða vertíð. þeir sem stjórna eru nefnilega að hóta að blása loðnuveiði alfarið af þó svo að norðmenn séu búnir að klára sinn kvóta hér nálægt íslandi... maður verður víst bara að bíða og vona...
mér tókst að ná mér í flensuskít um það leyti sem gunni minn fór. hundfúlt að vera lasin og ein heima, enginn til að stjana við mann. en sem betur fer er ég hraust (lesist: þrjósk og ómissandi) og hef samt mætt í vinnu. ég er semsagt að ná þessu úr mér með vítamín- og panódíl-áti og mikilli tedrykkju.

hér er farið að snjóa eina ferðina enn en ég vona að þetta verði ekki jafn svæsið og síðast. en í tilefni þessa langar mig að kasta fram fyrriparti úr vísu:

fannhvít er fönnin bjarta,
fellur sem best hún getur.


og botniði nú!

þriðjudagur, febrúar 12, 2008

mont!


glöggir áhorfendur kvöldfrétta rúv í dag hafa væntanlega séð frétt um söfnun nemenda 5. bekkja hamarsskóla fyrir rauða krossinn. þarna voru börnin mín (og hinna kennaranna líka) að sýna afrakstur söfnunar til handa skólabörnum í gambíu. þau söfnuðu skólatöskum, pennaveskjum, litum, blýöntum, bókum, fötum og fleiru nytsamlegu. þessi söfnun var í tengslum við átak suðurlandsdeilda rauða krossins og við fengum að taka þátt. forsprakki rauða krossdeildar vestmannaeyja, hermann einarsson alls staðar, kom síðastliðinn föstudag og tók við gjöfunum og hélt smá fyrirlestur í leiðinni.

fréttamaður rúv í eyjum kom og myndaði þetta allt í bak og fyrir og tók viðtal við tvo krakka. ég er að rifna úr stolti yfir hvað krakkarnir mínir voru duglegir og gjafmildir. ekki var heldur verra að þau skyldu komast í sjónvarpið fyrir vikið.

laugardagur, febrúar 09, 2008

gunni minn þurfti svo ekkert að moka innkeyrsluna eftir allt saman. það byrjaði að hlána eiginlega um leið og hann kom. en mikið var ég fegin að hafa hann heima í veðrinu í gær, þá vissi ég líka að hann væri óhultur en ekki að berjast í brjáluðu veðri einhvers staðar úti á sjó. svo bjóst ég reglulega við því að rúðan í stofunni kæmi hreinlega inn! jeminn eini! ég hefði ekki boðið í það að vera ein ef það hefði gerst. en við náðum að hafa það huggulegt í rafmagnsleysinu sem veðrið olli.
gunni fór svo í björgunaraðgerðir áðan en gleraugun hans stjána nínon fuku út í sjó í gær niðri við höfn. að sjálfsögðu tókst gunna kafara að finna þau! launin sem hann þiggur munu líklega verða í formi humars sem er nottlega bara frábært. það er yndislegt að búa með svona klárum kalli!
svo er þorrablót hugins ve í kvöld. þeir ákváðu það peyjarnir á heimstíminu í vikunni. það verður örugglega gaman og fínt að fá hákarl. ég hef nefnilega setið á mér í búðunum hér að versla slíkt. gunna finnst lyktin líka vond og svo á ég bágt með að borða heilan bita, vil bara smá smakk. sum sé munum við gunni blóta þorranum í kvöld. et, drekk og ver glaðr!

miðvikudagur, febrúar 06, 2008

enn snjóar í eyjum


og gunni minn á heimleið til að moka innkeyrsluna!

reyndar er það ekki eina ástæðan. það er víst búið að vera eitthvað bilerí um borð og höfuðlínustykkið (?) hefur styst mikið eftir hverja viðgerðina af annarri. þeir koma því heim til að laga það sem laga þarf og halda þorrablót í leiðinni. við getum því sungið með góðri samvisku: nú er frost á fróni því allur þessi snjór og kuldi er víst ekki á undanhaldi.

það er því glöð drífa sem bloggar í kvöld!

sunnudagur, febrúar 03, 2008

skyndihraðahindrun


enn er snjór á eyjunni fögru eins og víðar um landið. á fimmtudag var hellingssnjór en hífandi rok þannig að það var rosalegur skafrenningur. við bjartsýnu kennararnir í 5. bekk ætluðum að fara með liðið í sleðaferð. það gekk ekki...

svo þegar ég kom heim þá hélt ég að gaui hefði komið og mokað fyrir mig innkeyrsluna. svo reyndist ekki vera, megnið af snjónum hafði fokið í burtu. það sem varð eftir myndaði þessa fínu hraðahindrun fyrir framan bílskúrinn. ég hef aldrei átt hraðahindrun áður, þetta er ágætis tilbreyting og aldrei að vita nema ég fjárfesti í einni varanlegri þegar snjóa leysir.