mánudagur, desember 28, 2009

ekki nema hálft ár síðan síðast...hvert hefur tíminn flogið?
alla vega þá hefur ekki verið tíðindalaust hér hjá litlu stórfjölskyldunni. dúettinn er sprækur, enda að verða ársgömul og það styttist í að þau fari að labba. tennurnar koma hver af annarri og hárið sprettur, þó það gerist heldur hægt. gunni minn er ennþá sjómaður dáðadrengur á því gæðaskipi Huginn VE og húsmóðirin er heimavinnandi með börnin og verður það a.m.k. fram á næsta haust, jafnvel lengur. það er nefnilega nóg að gera með tvö lítil sem stækka og stækka og verða skemmtilegri og skemmtilegri.
elskuleg mamma mín lést 30. nóvember. hún greindist með krabbamein í heila í ágúst. þetta hefur því verið erfitt haust fyrir alla fjölskylduna. lucy systir er flutt til okkar og því hefur fjölgað um 3 í fjölskyldunni á þessu ári. við bindum miklar vonir við næsta ár og krossleggjum putta að þurfa ekkert að eyða tíma á spítala árið 2010.
gleðilegt ár! (fyrir þennan eina sem enn nennir að kíkja hingað inn...)

laugardagur, júní 27, 2009


ég er hér enn!!! það er bara soltið mikið að gera...

dúettinn er sprækur sem aldrei fyrr en það er auðvitað brjálað að gera síðan gunni minn fór á sjóinn.

meira síðar....vonandi...

fimmtudagur, maí 28, 2009

Undanfarið...

Það er alltaf mikið að gera á stóru heimili. Þó að litla stórfjölskyldan sé ekki fjölmenn þá er samt nóg að gera. Að minnsta kosti það mikið að það gefst ekki tími til að skrifa hér inn!
Við vorum í höfuðborginni um síðustu mánaðamót með Ella í læknisvitjunum sem enduðu í tveimur aðgerðum en allt er í besta lagi núna þó að þetta hafi tekið á þá. Milli aðgerða var nýjasta frænkan skírð, hún Hrafnhildur Helga og ég og sonurinn skelltum okkur til veislunnar meðan Gunni og dóttirin skruppu heim til Eyja.
Gunni fór í steggjapartý í mánuðinum og ég í gæsapartý. Auðvitað var fylgst með Júróvisjón, en þriðja árið í röð skrópaði ég í partýinu hjá Kötlu og Örvari. Gunni byrjaði að skipta um glugga á efri hæðinni en það er ekki vitað hvort næst að klára það áður en hann fer á sjó, sem verður eftir Sjómannadag. Gestir eru væntanlegir um helgina sem er bara skemmtilegt.
Að öðru leyti þá felst lífið okkar aðallega í því að hugsa um dýrgripina okkar og sjá allt það skemmtilega í hversdagsleikanum; hlátur og grátur, slef og æla, hjal og sprikl, svefn og vaka og svona mætti áfram telja... sem sagt gætum ekki haft það betra!

þriðjudagur, apríl 14, 2009

einu sinni í mánuði


það virðist vera orðið þannig að ég sjái mér ekki fært að kom hér inn nema einu sinni í mánuði og hripa eitthvað niður. enda svo sem nóg að gera á heimilinu. svo vorum við í borg óttans um daginn og vorum næstum tvær vikur en ætluðum bara að vera í eina. en við komumst heim fyrir páska og gátum því nartað í páskaeggin á heimavelli.

dúettinn dafnar og Erlendur er sprækur þrátt fyrir nýrnavesenið. en við þurfum sum sé að vera soldið á ferðinni með drenginn til læknis í höfuðborginni. það þýðir aðeins eitt og það er að við neyðumst til að kaupa okkur annan bíl. þegar við héldum upp á land núna síðast þurftum við að fá bílinn hjá tengdó lánaðan, en það er volvo steisjón. hann dugði samt varla fyrir allan farangurinn sem fylgdi litlu stórfjölskyldunni enda þurftum við að taka vagninn með og hann tekur svaðalegt pláss. svo núna erum við ein augu þegar við förum á rúntinn því við erum að reyna að sjá út hvernig bíll hentar best; er það jepplingur eða steisjón, sjömanna bíll eða pallbíll, lítil rúta eða húsbíll...maður spyr sig. eina skilyrðið er í rauninni að vagninn komist skammlaust í skottið og það sé pláss fyrir foreldrana og dúettinn. pláss fyrir foreldrana segið þið...jú þannig er mál með vexti að gunni þarf nefnilega að sitja mjög framralega þegar hann keyrir því bílstólarnir taka svo mikið pláss aftur í og það finnst honum óþægilegt þar sem hann er frekar hávaxinn. ég hugsa að svona rauður strætó sé of stór en hugmyndir að rúmgóðum bílum eru vel þegnar!

föstudagur, mars 13, 2009

net-óð???


ég veit ekki alveg hvað ég er að hugsa... ég er að rembast við að halda út þessari blogsíðu, fara reglulega á feisbúkk og svo er ég búin að setja upp barnalandssíðu fyrir dúettinn. það mætti halda að það væru fleiri klukkutímar í sólarhringnum hjá mér en öðrum.
eníhú...þar sem ég held að ég sé ofurkona þá ætla ég að halda þessu öllu til streitu. fyrir forvitna þá geta þeir kíkt á: http://arnaogerlendur.barnaland.is/


mánudagur, febrúar 23, 2009


ég hefði átt að þusa meira um fólk sem eyðir meiri tíma á facebook í stað þess að blogga. þann stutta tíma sem ég hef til að skjótast í tölvuna þá fer ég frekar á fésið en hingað...(roðn)

en alla vega...lífið er yndislegt hjá okkur litlu stórfjölskyldunni. dúettinn dafnar vel og stækkar. foreldrarnir eru yfirleitt alltaf syfjaðir meðan þeir sinna þeim verkum sem þarf að sinna; gefa börnunum, skipta á börnunum, klæða börnin, hugga börnin, þvo af börnunum, baða börnin... inn á milli gefst þó tími til að hringja kannski í einhvern einn, skjótast í tölvuna, gleypa í sig mat, skella sér í sturtu eða jafnvel taka eina leggju. ég hef ætlað mér að stofna barnalandssíðu fyrir dúettinn en eins og sést gefur maður sér ekki tíma í það. nógu erfitt er að setja inn myndir á fésið, það tekur nefnilega svo langan tíma.

í gær hefði átt að vera fæðingardagur dúettsins miðað við 40 vikna meðgöngu. í tilefni dagsins fórum við með liðið í fyrsta sinn út í vagninum. við röltum einn snöggan hring í bænum og heim aftur. það var æðislegt að komast út og hreyfa sig soltið og ekki er laust við að maður hafi verið beinni í baki og rogginn á svipinn þegar maður ýtti vagninum á undan sér. ég hlakka til þegar maður getur farið að gera þetta reglulega.

mánudagur, febrúar 09, 2009

komin heim...

...á eyjuna fögru með nýju vestmannaeyingana.
við útskrifuðumst af spítalanum mánudaginn 2. febrúar og eyddum 4 dögum í að taka á móti gestum, nefna börnin og halda veislu í tilefni af nafngiftinni.
englarnir okkar fengu nöfnin Erlendur og Arna í höfuðin á öfum sínum og buðum við nánustu fjölskyldu í kaffi í tilefni af því. afarnir voru að sjálfsögðu rosalega glaðir og stoltir af þeim heiðri að fá nafna og nöfnu og við ætlumst auðvitað til þess að þeir dekri sérstaklega við börnin vegna þessa.
annars voru vinir og vandamenn einstaklega duglegir við að heimsækja okkur og þegar við héldum heim þurftum við nánast að panta flutningabíl til að koma öllum gjöfunum til Eyja. það kemst lítið annað í bílinn en við og krakkarnir og smá farangur. (við sjáum fram á að þurfa að kaupa okkur stærri bíl...)
heimferðin gekk vel og þykir einsýnt að krakkarnir séu hinir mestu sjóhundar, alla vega sváfu þau vel í herjólfi og gáfu foreldrum sínum því tækifæri á að hvíla sig líka.
en það besta af öllu var að komast heim á ásaveginn. kisilíus tók vel á móti okkur þó hann skilji ekki alveg ennþá alla þá athygli sem krílin fá, ég held hann sakni þess að vera aðalnúmerið. eftir að hafa komist heim þá skil ég ennþá betur þetta orðatiltæki: hóm svít hóm!

sunnudagur, febrúar 01, 2009

dúettinn mættur á staðinn.

nú er ósk okkar um að verða foreldrar orðin að veruleika!
þegar við mættum galvösk til skoðunar mánudaginn 19. jan. var bumbukonan bara lögð inn med det samme. ástæðan: meðgöngueitrun. ekki skemmtilegt en hei, svona er þetta bara. það var vel fylgst með öllu hér á landspítala háskólasjúkrahúsi og passað upp á að bumbubúar hefðu það gott og til þess að þeir hefðu það gott þurfti hýsillinn að hafa það sæmilegt líka.
á endanum var ákveðið að ráðast í keisaraskurð þriðjudaginn 27. janúar. og tvíburi a (stúlka) fæddist kl. 13.51 e.h., 2710 grömm og 47 cm og tvíburi b (drengur) fæddist kl. 13.52 e.h., 3205 grömm og 50 cm.
síðan höfum við verið hér á sængurkvennadeild og bíðum spennt eftir því að komast heim. við ætlum nú samt að stoppa aðeins í borg óttans til að sem flestir geti nú hitt á prinsinn og prinsessuna. áhugasamir hafi samband!

miðvikudagur, janúar 14, 2009

nýjustu fréttir...

jæja, það er farið að styttast ískyggilega í annan endann á þessari meðgöngu. við hjónaleysin eigum sónartíma og viðtal við fæðingarlækni mánudaginn 19. jan í borg óttans. þá eru komnar 35 vikur. þá verður væntanlega tekin ákvörðun um keisara eða fæðingu og hvenær búast mætti við dúettinum. við vonum það alla vega því að móðirin tilvonandi er að verða ansi þreytt.
annars er heilsan góð miðað við aðstæður, býst ég við. brjóstsviðinn er að drepa mig nánast allan daginn, bjúgurinn situr á mér sem aldrei fyrr og hreyfigetan er orðin ansi takmörkuð bæði vegna risakúlunnar og liðverkja í hnjám og mjöðmum. en ég tek þessu öllu eins og hverju öðru hundsbiti og bít á axlirnar.
barnaherbergið er eiginlega orðið klárt, þarf bara að taka aðeins til. við náum í bílstólana í rvk þegar þangað verður komið og verslum heimferðarföt á liðið. þá ætti allt að vera komið og litlu krílin mega fara að láta sjá sig.
ég reyni svo að setja inn fréttir af okkur þegar komið verður til rvk, en það fer eiginlega allt eftir því hvort fartölvan verður komin úr viðgerð eða ekki.

fimmtudagur, janúar 08, 2009

sveinarnir fara að fara...


nú er jólaskrautið farið oní kassa þó að þrettándinn í vestmanneyjum verði ekki fyrr en á morgunn. jólaseríur og önnur jólaljós fá þó að vera áfram í gluggunum fram að gosdeginum eins og hefð er orðin fyrir hér á eyjunni fögru.

það var nú samt soldið skrítið að drita þessu aftur ofan í kassa því að mér fannst þetta búið að vera svo stutt uppi við og svo verður alltaf hálftómlegt þegar jólasveinar, englar og jólakettir eru farnir úr hillum og gluggakistum.

næstu jól verða væntanlega allt öðru vísi. þá verður maður eflaust á sprettinum á eftir tveimur 10 mánaða gríslingum sem vilja klifra í jólatrénu, halda á fína dagatalakertinu eða bara endurraða jólaskrautinu sem er út um allt. (og þegar ég tala um að endurraða: henda í gólfið) það verður samt bara gaman!

laugardagur, janúar 03, 2009

gleðilegt ár!


góðan daginn og gleðilegt ár!
nýtt ár gekk í garð hér með hefðbundnum hætti eins og annars staðar, þ.e. tíminn leið...
við hjónaleysin borðuðum stórsteik hjá tengdó en komum svo heim til að horfa á skaupið, enda hefð fyrir því að fá þau hjalla og berglindi til okkar og vera memm fram yfir miðnætti. bæ ðe vei: okkur fannst skaupið frábært!!!
í gegnum árin hefur síðan verið haldið heljarinnar partý hjá okkur en vegna aðstæðna á markaði var það ekki gert núna. hjalli og begga fóru því á vit ævintýranna þegar búið var að skjóta upp en við gunni minn fórum fljótlega að sofa. við þurfum vísta að safna kröftum áður en dúettinn mætir á staðinn.
og talandi um dúettinn þá fer nú að styttast í það að hann komi í heiminn. bumban stækkar og stækkar og er mikið á iði, mamman sefur minna og minna og pabbinn er orðinn ansi góður í að klæða mömmuna í sokka. barnaherbergið er nánast tilbúið og augljóst að foreldrarnir verðandi töpuðu sér í bangsímon þemanu. nú þarf bara að fara að huga að brottför til höfuðborgarinnar þar sem krílin þurfa að koma í heiminn.
p.s. til pabba: nudge nudge vaggan þarf bráðum að verða tilbúin nudge nudge