laugardagur, október 30, 2004

aftur verkfall?

já nú er maður búinn að heyra upp og ofan af miðlunartillögu ríkissáttasemjara sem og að klóra sig fram úr henni sjálfur. fokk.....ég segji ekki meir. halda menn að við séum fífl sem látum bjóða okkur hvað sem er! við erum búin að vera í verkfalli í 5. vikur og eftir þá fórn er réttlátt að hlusta á það sem kennarar hafa að segja. við erum ekki blóðsugur sem ætlum okkur að koma sveitastjórnum á kné. við erum venjulegt fólk sem vill fá mannsæmandi laun fyrir þá vinnu sem við innum af hendi. og það er óþolandi að heyra að fólk haldi að við séum í vinnu hálfan daginn. þó að kennsla sé búin þá er fullt eftir. ekki er þáttastjórnandi í sjónvarpi bara í vinnu meðan þátturinn stendur yfir!!! ég er hætt í bili, ég er orðin brjáluð!

föstudagur, október 29, 2004

verkfallið búið?!?!?!?

var kölluð í vinnu í morgunn. ótrúlega skrítin tilfinning. fundarhöld og skipulagning og svo kennsla á mánudag.
búið að fresta verkfalli en svo á eftir að koma í ljós hvort miðlunartillagan verður samþykkt. ég get alla vega sagt það að hún verður ekki samþykkt nema það séu töluverðar breytingar frá fyrri tillögu. mönnum er heitt í hamsi og fyrst við entumst í fimm vikur þá endumst við í aðrar fimm! við vorum ekki að leggja niður vinnu í þetta langan tíma fyrir skít og kanil!
þannig að kennarasleikjur um víða veröld gleðjist og gleðjið kennarana ykkar í leiðinni!

fimmtudagur, október 28, 2004

Íslendingar?

hún laila mín er að vinna að lokaverkefni í háskólanum sínum í london. hún bað vini og félaga að skrifa eitthvað um hvað einkennir íslendinga og vonast til að geta notað þá vitleysu eitthvað. en þar sem ég er svo góð þá langar mig að leyfa ykkur að njóta þessa líka. endilega veltið þessu fyrir ykkur!

Hvað gerir þig að Íslendingi? (hvað einkennir þig og þína þjóð?)

Ætli það sé ekki fyrst tungumálið sem gerir okkur sérstök. Við þykjumst geta lesið fornsögurnar (sem við getum en þurfum eiginlega orðabók því það er ansi margt breytt) og montum okkur af því við alla sem vita hvað íslenskar fornsögur eru.
Við segjum að það sé hvergi betra að vera en á Íslandi á góðum stundum, en verðum mjög pirruð þegar veðrið er leiðinlegt; kalt, snjór, rigning, rok, slydda o.s.frv. og þá langar okkur mest að flytja til útlanda. En auðvitað verða að vera Íslendingar í viðkomandi landi þannig að hægt sé að stofna Íslendingafélag og halda Þorrablót!
Þorramatur er í hávegum hafður einu sinni á ári sem og íslenskt brennivín. Aðra árstíma kemur hvorugt inn fyrir varir Íslendinga. Samt gortum við af því að borða hrútspunga, kæstan hákarl og kindaandlit við alla útlendinga sem við hittum. Þykjumst meira að segja taka lýsi á hverjum morgni! Viðurkennum það bara: okkur finnst best að borða amerískan skyndimat!
Við erum mjög montin af hálendinu okkar en förum samt aldrei þangað. Sendum bara illa búna túrista þangað sem björgunarsveitir þurfa svo að finna. Ætli það sé ekki bara gert til að þurfa ekki að kosta æfingar björgunarsveitanna því þær eru víst svo dýrar, best að slá tvær flugur í einu höggi.
Okkur finnst við líka merkileg af því að við erum svo fá þó að fæstir þori að viðurkenna það. Við erum nefnilega líka með minnimáttarkennd yfir því. Minnimáttarkenndin tengist líka stærð landsins og það étur þjóðina upp að innan. Það er því ekki meira um það að segja.
Við drekkum ekki í miðri viku heldur tökum það út um helgar. Það eru þá yfirleitt bæði föstudags- og laugardagskvöld tekin í það og drukkið svo klukkutímunum skiptir. Þeir sem drekka í miðri viku eiga nefnilega við áfengisvanda að stríða!!!?!??!?!?!?!?!!? Svo fer sunnudagurinn í þynnku og restin af vikunni í að rifja upp hvað gerðist um helgina. Svo byrjar rútínan upp á nýtt.
Íslendingar eru óskaplega nýungagjarnir. Þeir taka við allri tækni fyrstir af öllum í heiminum og er það líklega útaf minnimáttarkenndinni sem nefnd var hér áðan. Við þurfum að vera fyrst með allt og best í öllu til að sanna fyrir heiminum að við búum ekki lengur í torfkofum og við séum þrátt fyrir smæðina alveg kominn í nútíðina. Við erum sko ekki halló!
Íslendingar eru stolt þjóð og verða ofsa ánægðir ef einhver afkomandi Vestur-Íslendings í þriðja lið talar íslensku. En það kemur af því að það er merkilegt að búa á þessu litla landi, tala þetta skrítna tungumál, vera viðbúinn öllum veðrum, borða Þorramat á Þorranum, skötuna á Þorláksmessu og segja við alla How do you like Iceland? Enda þurfum við alltaf smá pepp útaf minnimáttarkenndinni.

Meira af kennarasleikjum

hei!
er búin að vera að velta soldið fyrir mér þessu fyrirbæri þ.e. kennarasleikjum og þá mundi ég eftir soldlu sem að fyrrum rúmmeitinn minn fattaði uppá. sko........kennarasleikjur eru makar kennara!!! hehehehehe....... þið leggið bara þá meiningu í þetta sem þið viljið en ég tek mér það bessaleyfi að skipta um skoðun. kennarasleikjur ekki slappa af í elskulegheitum við kennarana ykkar!

miðvikudagur, október 27, 2004

Kennarasleikjur,iss.

kennarasleikjur eru fyndið fyrirbæri. sem nemendur hötuðum við þær og fyrir kennara (moi) eru þær mjög pirrandi líka. ég held að þetta sé verðugt umræðuefni í miðju verkfalli. enda skilst mér að flestir kennarar séu farnir að sakna nemenda sinna, hvort sem þeir eru kennarasleikjur eða ekki. kannski erum við líka að verða soldið svöng og viljum fara að hætta þessu, því að þrátt fyrir útbreiddan misskilning þá eru kennarar EKKI að fá einhverjar fúlgur úr verkfallssjóði. og hana nú!
en alla vega, þið kennarasleikjur út um víðan völl, slappið aðeins af!

verkfallið

hei aftur!
ég er alveg að bilast úr leiðindum. Síðan verkfallið byrjaði þá er ég búin að þrífa eldhúsinnréttinguna, taka til í öllum skápum í íbúðinni, búa til öll jólakort sem verða send þetta árið (ætla að treina mér að skrifa á þau þar til að nær dregur jólum), búa til merkimiðana á jólapakkana, þrífa bílinn, þvo milljón þvotta og ég veit ekki hvað og hvað. svo reyni ég að vera lengi að þessu öllu því að ekkert virðist þoka í samningaátt. fokk!
reyndar ætlum við guðný og sæfinna að fara að baka jólasmákökurnar bráðum og svo er ég eiginlega búin að ákveða að gera leikgerð fyrir leikfélagið að barnaleikriti sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. en það mætti halda að ég væri ótrúlega mikil húsmóðir í mér miðað við það sem ég var að skrifa. ég verð að valda ykkur vonbrigðum....ég er það alls ekki. það kemur bara út á mér einhver skuggahlið í þessu bévítans verkfalli. ætli það endi bara ekki með því að ég fari að prjóna!!!!
síjú!