ég fór að velta fyrir mér æðinu í fyrir jól eftir að hafa lesið bloggfærslu möggu móðu fyrir nokkrum dögum. þar sagði að hún ætti eftir að þrífa svo marga skápa fyrir jólin og hefði svo mikið að gera að hún vissi ekki hvernig hún ætti að klóra sig fram úr þessu.
ég kommentaði að jólin væru yfirleitt ekki inni í skáp og að þau kæmu hvort sem skáparnir væru hreinir eða ekki.
ég man vel hvernig þetta var heima hjá mér í gamla daga. mamma bakaði 14 smákökusortir, svampbotna, marengsbotna, skinkuhorn, ostahorn, kúmenkringlur, randalínur, döðlubrauð, gráfíkjutertur og ég veit ekki hvað, fyrir utan konfektið sem hún var farin að gera líka. það þurfti að gera kertaskreytingar og kransa og það þurfti líka að þrífa inni í öllum skápum, skrúbba loft og veggi, pússa allt sem pússandi var o.s.frv. þetta tók toll af fjölskyldunni. stundum svo að allir voru hundfúlir hverjir við aðra af stressinu í mömmu af því að allt átti að vera fullkomið kl. 18.00 á aðfangadagskvöld. og yfirleitt var allt fullkomið, nema að mamma var úrvinda eftir erfiðan mánuð.
ég fæ reyndar stundum svona tilfinningu ennþá fyrir jólin að ég sé ómöguleg húsmóðir af því ég geri ekki allt eins og mamma (og reyndar amma, þaðan fékk mamma þetta æði fyrir jólin). en sem betur fer er ég frekar skynsöm kona og veit að jólin felast ekki í glansandi gólfum eða milljón smákökum sem enginn nennir að borða af því það er boðið upp á svo mikið konfekt. nei, ég dreifi verkefnunum jafnt á mánuðinn og læt mér nægja tvær smákökusortir (bara upp á stemminguna) og hef talið mér trú um að það sé betra að þrífa skápa á vorin því þá sést skíturinn betur. ég vil njóta þess að skreyta í rólegheitum, hlusta á jólalög og narta í smákökurnar, því konfektið geymi ég fram að jólum. svona vil ég njóta aðventunnar og hlakka til að eyða jólunum með þeim sem mér þykir vænt um, hvort sem að vel sé raðað inn í fataskáp eða ekki.