miðvikudagur, desember 24, 2008

jóla, jóla, jóla, jóla....


þá getur maður farið að éta konfekt, kökur og dýrindis steikur því jólin eru brostin á. ekki væri heldur verra að eitthvað leyndist í jólapökkunum sem mann langar í.

ég óska ykkur gleðilegra jóla og gæfu á nýju ári. megi kreppudraugarnir halda sig í burtu frá ykkur sem lengst. sjáumst hress á árinu sem senn gengur í garð!

föstudagur, desember 12, 2008

loksins, loksins...


hvað haldið þið? jú, það stefnir í að ég geti sofið í svefnherberginu mínu um helgina! eftir að hafa sofið í stofunni í u.þ.b. 2 mánuði, eftir framkvæmdir sem m.a. fólust í gluggaskiptum, þá er ekki frá því að hægt verði að flytja rúmið inn í herbergi.

þetta átti ekki að taka svona langan tíma. gunni minn kláraði sitt fljótt og vel enda einstaklega handlaginn verkmaður. en kallagreyin sem smíðuðu gluggana gleymdu að panta rúður. svo þegar rúðurnar komu voru þær sprungnar (litlu rúðurnar) og stóra rúðan var hreinlega of lítil. nú þetta er reyndar ekki búið enn því að stóra rúðan er komin (eftir langa mæðu) og í gluggann (út úr neyð, ég vil ekki sofa í stofunni um jólin því þá er ekkert pláss fyrir jólatré) en það er sprunga í henni. þannig að við verðum í þessu brasi fram að páskum, grunar mig.

svo er gunni minn að klára gluggamálin í barnaherberginu líka. ótrúlegt en satt var líka vesen með rúðurnar þar. en ef allt gengur eins vel og hægt er miðað við sprungnar aðstæður þá gætum við komist langt með barnaherbergið, raða húsgögnum sem komin eru og svona. gardínumál verða að bíða þar til við komumst til borgar óttans.
en kisi minn verður að sætta sig við að kúra einn frammi eftir þessa flutninga aftur inn í herbergi, greyið litla.

föstudagur, desember 05, 2008

jólaundirbúningur


ég fór að velta fyrir mér æðinu í fyrir jól eftir að hafa lesið bloggfærslu möggu móðu fyrir nokkrum dögum. þar sagði að hún ætti eftir að þrífa svo marga skápa fyrir jólin og hefði svo mikið að gera að hún vissi ekki hvernig hún ætti að klóra sig fram úr þessu.


ég kommentaði að jólin væru yfirleitt ekki inni í skáp og að þau kæmu hvort sem skáparnir væru hreinir eða ekki.


ég man vel hvernig þetta var heima hjá mér í gamla daga. mamma bakaði 14 smákökusortir, svampbotna, marengsbotna, skinkuhorn, ostahorn, kúmenkringlur, randalínur, döðlubrauð, gráfíkjutertur og ég veit ekki hvað, fyrir utan konfektið sem hún var farin að gera líka. það þurfti að gera kertaskreytingar og kransa og það þurfti líka að þrífa inni í öllum skápum, skrúbba loft og veggi, pússa allt sem pússandi var o.s.frv. þetta tók toll af fjölskyldunni. stundum svo að allir voru hundfúlir hverjir við aðra af stressinu í mömmu af því að allt átti að vera fullkomið kl. 18.00 á aðfangadagskvöld. og yfirleitt var allt fullkomið, nema að mamma var úrvinda eftir erfiðan mánuð.


ég fæ reyndar stundum svona tilfinningu ennþá fyrir jólin að ég sé ómöguleg húsmóðir af því ég geri ekki allt eins og mamma (og reyndar amma, þaðan fékk mamma þetta æði fyrir jólin). en sem betur fer er ég frekar skynsöm kona og veit að jólin felast ekki í glansandi gólfum eða milljón smákökum sem enginn nennir að borða af því það er boðið upp á svo mikið konfekt. nei, ég dreifi verkefnunum jafnt á mánuðinn og læt mér nægja tvær smákökusortir (bara upp á stemminguna) og hef talið mér trú um að það sé betra að þrífa skápa á vorin því þá sést skíturinn betur. ég vil njóta þess að skreyta í rólegheitum, hlusta á jólalög og narta í smákökurnar, því konfektið geymi ég fram að jólum. svona vil ég njóta aðventunnar og hlakka til að eyða jólunum með þeim sem mér þykir vænt um, hvort sem að vel sé raðað inn í fataskáp eða ekki.

mánudagur, desember 01, 2008

breytingar


nú standa yfir breytingar á herbergjaskipan í húsinu. ég er reyndar búin að sofa í stofunni í rúman mánuð vegna skorts á rúðu í nýja gluggann en það eru ekki breytingarnar sem nú eru fyrirliggjandi. tölvan er komin upp á loft og verið er að vinna að því að tæma litla herbergið sem senn verður barnaherbergi.

hann gunni minn er í landi og hann lætur sér sko ekki leiðast. þar á sumsé að skipta um glugga (í hann vantar ekki rúðu) og mála og svo raða inn þeim húsgögnum sem æskileg eru í slíkum herbergjum. það er nú ekki margt sem vantar ennþá. bara svona dúllerí sem mömmum finnst vanta í slík herbergi: sætar gardínur, næturljós, krúttlegt loftljós, hillur fyrir alls kyns krúttlegheit, jafnvel veggborða og að sjálfsögðu þarf þetta allt að vera í stíl. mikið vildi ég að ég gæti ráðið svona innlit/útlit týpu sem myndi bara sjá um þetta fyrir mig. því þó ég sé hætt að vinna vex mér þetta svo í augum að ég er að fá útbrot af þreytu fyrirfram...