fimmtudagur, maí 28, 2009

Undanfarið...

Það er alltaf mikið að gera á stóru heimili. Þó að litla stórfjölskyldan sé ekki fjölmenn þá er samt nóg að gera. Að minnsta kosti það mikið að það gefst ekki tími til að skrifa hér inn!
Við vorum í höfuðborginni um síðustu mánaðamót með Ella í læknisvitjunum sem enduðu í tveimur aðgerðum en allt er í besta lagi núna þó að þetta hafi tekið á þá. Milli aðgerða var nýjasta frænkan skírð, hún Hrafnhildur Helga og ég og sonurinn skelltum okkur til veislunnar meðan Gunni og dóttirin skruppu heim til Eyja.
Gunni fór í steggjapartý í mánuðinum og ég í gæsapartý. Auðvitað var fylgst með Júróvisjón, en þriðja árið í röð skrópaði ég í partýinu hjá Kötlu og Örvari. Gunni byrjaði að skipta um glugga á efri hæðinni en það er ekki vitað hvort næst að klára það áður en hann fer á sjó, sem verður eftir Sjómannadag. Gestir eru væntanlegir um helgina sem er bara skemmtilegt.
Að öðru leyti þá felst lífið okkar aðallega í því að hugsa um dýrgripina okkar og sjá allt það skemmtilega í hversdagsleikanum; hlátur og grátur, slef og æla, hjal og sprikl, svefn og vaka og svona mætti áfram telja... sem sagt gætum ekki haft það betra!

1 ummæli:

Lilja sagði...

Dásamlegt að heyra hvað þið eruð fljót að aðlaga ykkur nýjum hlutverkum - enda búin að vera löng bið. Knús úr Hafnarfirði