miðvikudagur, janúar 30, 2008

ammæli


hann gunni minn á afmæli í dag og auðvitað anna systir hans líka. ég veit ekki alveg með hana en hann verður sætari með hverju árinu sem líður og svei mér ef ég er ekki alveg jafn skotin í honum núna eins og fyrst, kannski meira?

hann eyðir deginum sínum um borð í huginn ve og vonandi verða strákarnir góðir við hann. ég er viss um að kokkurinn hann eysteinn muni framreiða einhverjar dýrindis krásir.

elsku gunni minn innilega til hamingju með daginn! ég epla þig!

þriðjudagur, janúar 29, 2008

jógi björn


ég byrjaði á jóganámskeiði ekki alls fyrir löngu. ég hef alltaf verið spennt fyrir því að prófa og loksins fékk ég tækifæri til þess. mér finnst þetta alveg frábært og sé sjálfa mig bráðum svífandi fyrir ofan gólfið í lótusstellingunni. en í tímanum í dag þá voru nýjar æfingar sem vinna með liðleika en það verður að játast að ég er jafn stirð og solla. þess vegna líður mér eins og ég sé jógi björn, soltið klunnaleg og finnst gott að borða mat sem aðrir útbúa. kannast fleiri við þetta?


en hér er gáta. man einhver hvað litli vinur hans yogi bear heitir?

mánudagur, janúar 28, 2008

gunni minn fór aftur á sjóinn í dag og ég er aftur farin að pirra mig á snjókomunni. planið var að þeir huginsmenn færu út í gærkvöldi en herjólfur fór ekki í gær og tveir áhafnarmeðlimir fastir uppi á landi. ég er þeim þakklát fyrir það því að gunni minn var örlítið lengur hjá mér.
kannski ég fari að hundskast upp á land til að lyfta mér upp meðan gunni aflar þjóðinni og okkur tekna? það er kominn rúmur mánuður síðan síðast, alveg kominn tími á þetta...

laugardagur, janúar 26, 2008


enn snjóar en mér er alveg sama því að gunni minn er heima. hann kom í land á fimmtudagsmorgunn um 5 leytið og fer ekki aftur fyrr en á morgunn, sunnudag. reyndar hefur hann verið að vinna um borð þannig að ég hef ekki haft hann alveg útaf fyrir mig (snökt).
þetta stopp er víst lengra heldur en venjulegt þar sem það þarf að gera við nótina og bindivélina (það er samt ekki verið að heyja um borð) og svoleiðis. og af því þeir eru að veiða milli færeyja og skotlands er ólíklegt að þeir landi heima næst. það verður væntanlega ekki fyrr en á loðnunni. ég þarf sumsé að bíta á axlirnar og þrauka.

í lokin vil ég óska öllum bændum til hamingju með daginn í gær.

miðvikudagur, janúar 23, 2008

23. janúar 1973

í tilefni þess að eldgos hófst á Heimaey fyrir 35 árum langar mig að benda ykkur á þennan vef hérna: http://heimaslod.is/
þar skuluð þið velja: Byggðin undir hrauninu og þá getið þið t.d. séð húsið mitt fyrir og eftir gos.

þriðjudagur, janúar 22, 2008

ammæli!

ég á ammæli í dag
ég á ammæli í dag
ég á ammæli sjááálf
ég á ammæli í dag...

mánudagur, janúar 21, 2008

vedur.is

ég held ég geti bráðum breytt nafninu á kennarasleikjunni í vedur.is. ég er nefnilega orðin eins og gamall kall og tala bara um veðrið og hægðir og lægðir.
veðrið á íslandi í dag er bara rugl. það er farið að hvessa duglega hér á eyjunni fögru og búið að rigna síðan fyrir hádegi. færðin er orðin slæm, aftur. ég er farin að velta fyrir mér hvort það verði skóli á morgunn. það er hætt við að léttari börn og mjónur eins og ég fjúki út á hafsauga í verstu hviðunum í fyrramálið. maður veltir þessu fyrir sér...

föstudagur, janúar 18, 2008

enn snjóar!

ja hérna hér! það snjóar bara og snjóar, þetta er að verða eins og fyrir austan í gamla daga! ætli ég neyðist ekki til að taka fram skófluna eina ferðina enn...djö... ég er alla vega fegin að hafa hætt við að fara upp á land úr því að færðin ætlar ekki að breytast. það verður fínt að kúra sig inni í fannferginu og horfa á em í handbolta um helgina. ég er sannfærð um að strákarnir okkar geti ekki orðið lélegri en í gær. áfram ísland! kannski kíkja líka eva og þór, jafnvel í einn bjór, hvað veit maður?

miðvikudagur, janúar 16, 2008

ég er orðin grasekkja enn á ný. gunni minn fór á sjó á laugardagskvöldið. eins og venjulega var það afspyrnu fúlt. ég hef samt haft lítinn tíma til að sakna hans þar sem ég er á haus í vinnunni þessa dagana. deddlænið fyrir einkunnirnar dregst nær og nær. maður þarf víst að klára dæmið þannig að það er unnið fram að kvöldmat á daginn uppi í skóla og svo heima á kvöldin, ég fór meira að segja laugardag og sunnudag í vinnuna líka. en þessu fer að ljúka. einkunnablöðin skulu prentuð út seinni partinn á morgunn.
þeir sem hafa fylgst með veðrinu undanfarið hafa væntanlega áttað sig á því að það hefur verið örlítil ofankoma undanfarna daga. við höfum ekki farið varhluta af því hér á eyjunni fögru. það hefur kyngt niður snjó sem aldrei fyrr og ég hef þurft að draga fram skófluna tvo daga í röð. í gær til að moka bílnum inn í skúr og svo í dag til að moka bílinn út úr skúrnum. ég vonast til að komast á kagganum í vinnuna á morgunn. það gekk brösulega að ganga í vinnuna í morgunn þar sem ekki var búið að ryðja af gangstéttum heldur bara á þær.
ég fór í minn fyrsta yoga tíma í gær í bylnum. geggjað...er ekki frá því að þetta henti mér mjög vel. ég bíð alla vega spennt eftir framhaldinu. namaste.
núna hef ég smá tíma til að sakna gunna og bíða eftir því að hann hringi. ég ætla mér að nýta mér þessar mínútur. ble....

fimmtudagur, janúar 10, 2008

jæja þá er maður byrjaður að vinna og það af krafti! jedúddamía hvað það er mikið að gera hjá mér...shift.
annarskipti eru framundan, sem og foreldrafundir. það þýðir að ég er endalaust að fara yfir próf þessa dagana, meta verkefni, setja einkunnir inn í mentorkerfið auk þess að undirbúa hefðbundna kennslu og auðvitað að kenna. ég sé fram á að vera að vinna meirihluta helgarinnar. ég þreytist bara við tilhugsunina. helgarnar eiga að vera notaðar í að hlaða batteríin sem eru fljót að eyðast upp þegar aldurinn færist yfir... (ég á afmæli bráðum, sko...)

laugardagur, janúar 05, 2008

af áramótum og annarri vitleysu

gleðilegt ár allir nær og fjær og takk fyrir það liðna.
við gunni minn áttum góð áramót. það var farið á brennu kl. 17.00 og að sjálfsögðu var þessi líka fína flugeldasýning í boði björgó. svo fórum við heim og dunduðum okkur við að gera klárt fyrir matinn. að fenginni reynslu vissum við að ekki yrði nauðsynlegt að flýta sér þannig að við undirbjuggum humarinn, sturtuðum okkur og borðuðum svo um átta. maturinn heppnaðist sérstaklega vel hjá okkur og máltíðin einstaklega rómó eins og fyrr.
svo settumst við fyrir framan sjónvarpið og biðum eftir hjalla og beggu. að venju komu þau fyrir skaupið og við vorum öll sammála um að þetta hafi verið hið fínasta skaup. ágætis tilbreyting að minna var gert grín að stjórnmálamönnum en oft áður. kannski taka menn þetta aðeins til sín og minnka þjóðrembinginn.
eftir skaupið kom snorri og fljótlega urðu þeir strákarnir alveg snar þegar líða tók að miðnætti. þá voru borin út heilu tonnin af flugeldum. sem dæmi má nefna að fjórar risakökur voru settar út á götu á bretti fyrir nú utan allt hitt sem var sprengt. ég hef heyrt að nágrannarnir séu að velta fyrir sér hvaða geðsjúklingar búi á 24. þetta var sumsé allt voða flott og í hamaganginum missti ég af því að sjá þegar gamla árið fór og nýja kom í sjónvarpinu, í fyrsta skipti að eilífu held ég. begga vill meina að það boði gott fyrir næsta ár, ég treysti því.
svo fóru menn að mæta í partý þegar leið á nóttina og hér varð heljarinnar geim. síðustu gestirnir fóru þó óvenjusnemma eða uppúr fimm, en við hjónaleysin nenntum ekki á ball.
svo hefur vikan verið róleg þar sem ég byrja ekki að vinna fyrr en á mánudag. við reyndar erum búin að taka niður skrautið, gerðum það í dag, þar sem vestmannaeyingar eru klikk og halda þrettándann í dag. jólaljósin fá þó að vera fram til 23. janúar enda komin hefð fyrir því.
afmælisbörn janúarmánaðar fá hér kveðju:
elín y, kristjana, bibbi, laila, þríburarnir, andrea, eva vals, ég sjálf, örvar, bergný rokk, gunni minn og anna stefanía og síðast en ekki síst fanney.
ég veit að ég hef verið löt við að óska fólki til hamingju með daginn undanfarna mánuði en : til hamingju!